Sigur­ganga Chelsea heldur á­fram en PSG í vandræðum | Messi og Håland skoruðu en Ron­aldo ekki

Anton Ingi Leifsson skrifar
Messi, Pjanic og De Jong fagna vítaspyrnumarki Messi í kvöld.
Messi, Pjanic og De Jong fagna vítaspyrnumarki Messi í kvöld. Pedro Salado/Quality Sport Images/Getty Images

Chelsea er á fleygiferð í Meistaradeildinni. Liðið hefur unnið fyrstu þrjá leikina í E-riðlinum en liðið vann 3-0 sigur á Rennes í kvöld. Sevilla vann magnaðan endurkomusigur 3-2 á Krasnodar í sama riðli.

Timo Werner skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu á tíundu mínútu og aftur fengu þeir ensku vítaspyrnu á 41. mínútu. Sú vítaspyrna var umdeild en Dalbert, varnarmaður Rennes, fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt í aðdraganda vítaspyrnunnar.

After fór Werner á punktinn og skoraði. Þriðja markið skoraði Tammy Abraham á fimmtu mínútu síðari hálfleiks og innsiglaði sigur Chelsea sem hefur enn ekki fengið á sig mark með Edouard Mendy í Meistaradeildarmarkinu.

Krasnodar komst í 0-2 með mörkum frá Magomed-Shapi Suleymanov og Marcus Berg en Ivan Rakitic minnkaði muninn fyrir hlé. Ekki skánaði ástandið fyrir Sevilla sem fékk rautt spjald á 45. mínútu, nánar tiltekið Jesus Navas. Einum færri jöfnuðu þeir þó á 69. mínútu með marki Youssef En-Nesyri og þeir tryggðu sér svo sigurinn með öðru marki Youssef á 72. mínútu.

Chelsea og Sevilla eru með sjö stig á toppi E-riðils en Krasnodar og Rennes eru með sitt hvort stigið.

Í F-riðlinum rúllaði Borussia Dortmund yfir Club Brugge, 0-3, er liðin mættust í Belgíu. Thorgan Hazard kom Dortmund yfir og Erling Braut Håland bætti svo við tveimur mörkum fyrir hlé. Magnaður í Meistaradeildinni Norðmaðurinn.

Dortmund er með stig, Lazio fimm, Brugge fjögur og Zenit eitt í F-riðlinum en Lazio og Zenit gerðu 1-1 jafntefli í Rússlandi fyrr í dag.

Barcelona og Juventus eru að stinga af í G-riðlinum. Barcelona vann 2-1 sigur á Dynamo Kiev með mörkum frá Lionel Messi og Gerard Pique. Alvaro Morata skoraði tvö, Paulo Dybala eitt og eitt sjálfsmark leit dagsins ljós í 4-1 sigri Juventus á Ferencvaros.

Barcelona er með níu stig á toppi riðilsins. Juventus fylgir þeim fast á eftir og eru með sex stig í öðru sætinu en Dynamo Kiev og Ferencvaros eru í þriðja og fjórða sætinu með eitt stig.

Leipzig vann endurkomusigur á PSG á heimavelli. Angel Di Maria kom PSG yfir en hann brenndi einnig af vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Christopher Nkunku jafnaði metin fyrir hlé og sigurmarkið skoraði Emil Forseberg á 57. mínútu úr vítaspyrnu fyrir þá þýsku.

Það er því mikið jafnræði enn í H-riðlinum. Man. United og Leipzig eru með sex stig en PSG og Istanbul eru með þrjú stig eftir sigur Tyrkjanna á United fyrr í dag.

Öll úrslit kvöldsins:

E-riðill:

Chelsea - Rennes 3-0

Sevilla - Krasnodar 3-2

F-riðill:

Zenit - Lazio 1-1

Club Brugge - Dortmund 0-3

G-riðill:

Barcelona - Dynamo Kiev 2-1

Ferencvaros - Juventus 1-4

H-riðill:

Instabul Basaksehir - Man. United 2-1

Leipzig - PSG 2-1

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira