Sveinn Aron Guðjohnsen hefur verið kallaður upp í íslenska A-landsliðið fyrir leikinn gegn Englandi á miðvikudaginn kemur.
Þetta staðfesti danska úrvalsdeildarfélagið OB, þar sem Sveinn Aron spilar á láni frá Spezia á Ítalíu, á samfélagsmiðlum sínum í dag.
Sveinn Aron hefur verið lykilmaður í íslenska U21 árs landsliðinu undanfarið en þar leikur hann sem fremsti maður. Er hann annar leikmaður U21 árs landsliðsins sem er kallaður inn í hópinn hjá A-landsliðinu í síðasta leik Erik Hamrén með liðið.
Hinn 17 ára gamli Ísak Bergmann Jóhannesson verður einnig til taks í þeim leik.
Sveinn Aron er í byrjunarliði U21 árs landsliðsins sem mætir Írlandi í dag. Sigur í þeim leik þýðir að öllum líkindum að liðið kemst í umspil um sæti á Evrópumótinu næsta sumar. Ísak Bergmann er á varamannabekknum.
Sveinn Aron hefur alls leikið 14 leiki fyrir U21 árs landslið Íslands og gert í þeim fimm mörk.
Leikur Englands og Íslands fer fram Wembley í Lundúnum á miðvikudaginn þann 18. nóvember. Verður leikurinn sýndur beint á Stöð 2 Sport.