Erlent

Purdue Pharma gengst við ábyrgð á ópíóíða faraldrinum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Hundruð þúsunda hafa látið lífið vegna ofneyslu á OxyContin í Bandaríkjunum. 
Hundruð þúsunda hafa látið lífið vegna ofneyslu á OxyContin í Bandaríkjunum.  Erik McGregor/Getty Images

Lyfjarisinn Purdue Pharma hefur gengist við sekt í dómsmáli í New Jersey og hefur þannig í fyrsta sinn formlega tekið ábyrgð á hlut sínum í ópíóíða-faraldrinum sem gengið hefur yfir Bandaríkin síðustu ár.

Purdue Pharma framleiðir deyfilyfið OxyContin og hefur nú viðurkennt að hafa ekki gert nóg í því að koma í veg fyrir að lyf þeirra færu inn á svarta markaðinn. Þá viðurkenndi fyrirtækið að hafa borgað læknum sérstaklega fyrir að skrifa út OxyContin lyfseðla auk þess sem viðurkennt er að fyrirtæki sem heldur utan um rafrænar læknaskrár var borgað til að senda læknum upplýsingar um sjúklinga sem gerði þá líklegri til að skrifa út OxyContin til þeirra, að því er fram kemur í umfjöllun AP fréttastofunnar.

OxyContin, var fyrst markaðsett sem verkjalyf sem fólk yrði ekki mjög háð, ólíkt morfíní. Annað hefur sannarlega komið á daginn og er talið að hundruð þúsunda Bandaríkjamanna hafi dáið af of stórum skammti lyfsins í gegnum árin.

Sackler fjölskyldan, sem á fyrirtækið og hefur efnast stórkostlega á OxyContin, er ekki aðili að málinu heldur aðeins fyrirtækið sjálft og hefur það reitt marga til reiði sem vilja sjá einstaklingum refsað fyrir þátt þeirra í Ópíóíða-faraldrinum.


Tengdar fréttir

Framleiðandi Oxycontins játar sekt og greiðir milljarða

Purdue Pharma, bandaríska lyfjafyrirtækið sem framleiðir sterka verkalyfið Oxycontin, ætlar að játa sig sekt um mútugreiðslur og samsæri og greiða meira en átta milljarða dollara til að ná sátt í máli bandarísku alríkisstjórnarinnar gegn því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×