Fjölmiðlar hafa lýst samkomunni sem hálfgerðri „orgíu“ eða kynsvalli, sem haldið hafi verið á svig við sóttvarnareglur sem nú eru í gildi í Belgíu.
Lögregla í Brussel stöðvaði gleðskapinn á föstudagskvöld vegna gruns um að þar væru sóttvarnalög brotin. Fjögurra manna samkomubann vegna kórónuveirufaraldursins er nú í gildi í Belgíu.
Belgískir fjölmiðlar greina frá því að um 25 karlmenn hafi verið viðstaddir samkomuna, sumir naktir. Á meðal viðstaddra hafi jafnframt verið þingmaður og nokkrir diplómatar.
Miðilinn Politico hefur upp úr tilkynningu frá saksóknara í Brussel að Szájer hafi reynt að flýja vettvang í gegnum glugga. Eiturlyf hafi fundist í bakpoka sem hann hafði meðferðis en honum hafi svo verið fylgt að heimili sínu.
Szájer, sem tilkynnti um afsögn sína í gær en viðurkenndi síðar að hún tengdist umræddu samkvæmi, segir að lögregla hafi veitt honum „munnlega áminningu“. Hann kveðst ekki hafa neytt eiturlyfja og segist sjá mjög eftir því að hafa brotið sóttvarnareglur. Þá lýsir hann málinu sem „persónulegu feilspori“ og biðlar til fólks að setja það ekki í samhengi við stjórnmálaflokkinn sem hann tilheyrir eða heimalandið Ungverjaland.
Athygli vekur að Szájer, sem virðist þarna hafa verið gestur í einhvers konar kynsvalli með öðrum karlmönnum, er háttsettur innan hins ungverska Fidesz, flokks forsætisráðherrans Viktors Orbán. Flokkurinn hefur rekið talsvert harða stefnu gegn hinseginfólki í landinu.