Enski boltinn

Gylfi Þór skapaði nær öll færi E­ver­ton og skoraði sigur­markið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gylfi Þór tryggði Everton öll þrjú stigin með marki af vítapunktinum. Þá skapaði hann flest færi allra í Everton-liðinu og í rauninni öll færi liðsins í leiknum eða sex af sjö færum.
Gylfi Þór tryggði Everton öll þrjú stigin með marki af vítapunktinum. Þá skapaði hann flest færi allra í Everton-liðinu og í rauninni öll færi liðsins í leiknum eða sex af sjö færum. EPA-EFE/Clive Brunskill

Gylfi Þór Sigurðsson átti heldur betur góðan leik í gær er Everton vann Chelsea 1-0 á heimavelli sínum, Goodison Park. Íslenski landsliðsmaðurinn bjó til nær öll færi Everton ásamt því að skora sigurmarkið úr vítaspyrnu.

Það má með sanni segja að Gylfa Þór líði vel gegn Chelsea en þetta var sjötta mark hans gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni. Alls hefur Gylfi Þór skorað 62 mörk í efstu deild enska fótboltans eða jafn mörg og David Beckham gerði á sínum tíma.

Mörkin sex gegn Chelsea dreifast á þau þrjú félög sem íslenski miðjumaðurinn hefur leikið fyrir í úrvalsdeildinni. Tvö komu með Swansea City, tvö með Tottenham Hotspur og nú tvö með Everton.

Fimm af þessum sex mörkum hafa tryggt liði Gylfa stig, í eintölu eða fleirtölu. Hann skoraði í tveimur leikjum Tottenham og Chelsea árið 2013 en báðum lauk með jafntefli. Árið 2016 skoraði hann sigurmark Swansea City og sama ár skoraði hann í jafnteflisleik liðanna. Svo var það leikurinn í gær þar sem hann tryggði Everton sigurinn.

Ekki nóg með það heldur skapaði hann sex af sjö færum Everton í leiknum. Enginn leikmaður Everton hefur skapað jafn mörg færi í einum og sama leiknum í tvö ár. Þá bar Gylfi Þór fyrirliðaband Everton í leiknum.

Gylfi Þór fær 7.9 í einkunn á vefsíðu WhoScored, hæst allra á vellinum. Breska ríkisútvarpið, BBC, gefur Gylfa 7.48 í einkunn en Michael Keane, Ben Godrey og Dominic Calvert-Lewin fá allir hærri einkunn þar.

Að lokum fær Gylfi 8 hjá staðarblaðinu Liverpool Echo líkt og allir aðrir leikmenn liðsins fyrir utan Godfrey sem fékk 9.


Tengdar fréttir

Gylfi tryggði Everton sigur á Chelsea

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hans í Everton sáu til þess að Chelsea tókst ekki að tylla sér á topp ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×