Þetta kom fram í máli Ölmu Möller landlæknis á upplýsingafundi almannavarna vegna kórónuveirunnar í dag.
Alma sagði að hjúkrunarheimili verði opin fyrir heimsóknir alla daga og einn til tveir gestir geti komið í heimsókn hvern dag. Heimsóknartímar hafa verið lengdir og börn yngri en 18 ára velkomin í heimsókn, ef þau eru annar af þessum tveimur gestum.
Gestir mega ekki dvelja í almennum rýmum heldur einungis inni hjá íbúa. Ekki má koma í heimsókn á matmálstímum og það á einnig við um aðfangadag og jóladag.
Alfarið er mælst gegn því að íbúar fari í boð til ættingja á þessum tíma. Ef farið er í slíkt boð gera hjúkrunarheimilin kröfu um að íbúi fari í sóttkví á heimili aðstandenda og í sýnatöku áður en heimild er veitt til að koma aftur inn á hjúkrunarheimilin.
Fólk sem kemur erlendis frá verður að hafa lokið sóttkví og fengið neikvæða niðurstöðu úr seinni sýnatöku áður en það heimsækir hjúkrunarheimili. Mælst er til þess að þrír aukadagar verði látnir líða frá komu til landsins til að auka öryggi enn frekar.