Sveindís skrifaði undir fjögurra ára samning við Wolfsburg og fetar þar með í fótspor Söru Bjarkar Gunnarsdóttur sem lék með liðinu 2016-20.
Sveindís leikur þó með Kristianstad á næsta tímabili á láni frá Wolfsburg. Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad og Sif Atladóttir leikur með liðinu.
Á síðasta tímabili lék Sveindís með Breiðabliki á láni frá Keflavík. Hún varð Íslandsmeistari með Blikum, markahæst í Pepsi Max-deild kvenna með fjórtán mörk og valin leikmaður ársins.
Sveindís, sem er nítján ára, lék síðustu fimm leiki Íslands í undankeppni EM 2022 í haust og skoraði tvö mörk.
Wolfsburg hefur unnið tvöfalt í Þýskalandi undanfarin fjögur ár. Þá komst liðið í úrslit Meistaradeildar Evrópu á síðasta tímabili þar sem það tapaði fyrir Lyon, 3-1.
Kristianstad endaði í 3. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og tekur þátt í Meistaradeildinni í fyrsta sinn á næsta tímabili.