Ríkisstjórnin hefur bætt verulega við fylgi sitt á síðustu vikum aðgerða vegna samdráttar í efnahags- og atvinnulífi. Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup studdu sjö prósentustigum fleiri ríkisstjórnina í mars en í síðustu könnun.
Af þeim sem tóku afstöðu í könnuninni sögðust 55 prósent styðja ríkisstjórnina og hefur stuðningur við hana ekki mælst meiri hjá fyrirtækinu frá því í apríl árið 2018 þegar hún var nokkurra mánaða gömul.
"Meiri stuðningur mældist við ríkisstjórnina seinni hluta marsmánaðar en fyrri hluta hans, en rösklega 59% sögðust styðja stjórnina seinni hluta mánaðarins samanborið við tæplega 52% fyrri hluta hans," segir í tilkynningu frá Gallup.
Helstu breytingar á fylgi flokka frá síðustu mælingu séu að Miðflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn tapi fylgi eftir mikla fylgisaukningu í febrúar. Fylgi Miðflokksins minnki um þrjú prósentustig, en rúmlega 11% þeirra sem taki afstöðu myndu kjósa flokkinn færu kosningar til Alþingis fram í dag.
Samkvæmt könnun Gallup í mars minnkar fylgi Sósíalistaflokksins um tæplega tvö prósentustig en ríflega 3% myndu kjósa flokkinn nú. Fylgi annarra flokka breytist lítið milli mánaða, eða um 0,1-1,5 prósentustig.
Rösklega 23% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, liðlega 15% Samfylkinguna, ríflega 13% Vinstri græn, um 11% Viðreisn, rúmlega 10% Pírata, liðlega 8% Framsóknarflokkinn og rúmlega 4% Flokk fólksins.
Liðlega 11% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa og sama hlutfall tekur ekki afstöðu eða neitar að gefa hana upp.