Innlent

Tannlæknir hefur kært ákvörðun Sjúkratrygginga

Verjandi tannlæknisins, Gestur Jónsson hrl., segir ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands ólögmæta. Myndin er úr safni.
Verjandi tannlæknisins, Gestur Jónsson hrl., segir ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands ólögmæta. Myndin er úr safni.
Tannlæknir á Suðurnesjum hefur kært ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands þess efnis að stöðva þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar hans frá og með 1. október síðastliðnum. Þetta staðfestir Gestur Jónsson hrl., lögmaður tannlæknisins, við Fréttablaðið.

Tannlæknirinn sem um ræðir hefur verið ákærður fyrir Héraðsdómi Reykjaness fyrir meint tryggingasvik upp á 129 þúsund krónur. Verjandi hans sagði í Fréttablaðinu fyrr í vikunni að málatilbúnaðurinn væri undarlegur. Hann hefur gert kröfu um að málinu verði vísað frá dómi.

Rannsókn málsins hjá lögreglu hefur tekið á fimmta ár. Mikið var fjallað um málið í fjölmiðlum og var jafnvel talið, samkvæmt upplýsingum sem þeim voru veittar, að svikin næmu allt að 200 milljónum króna síðustu þrjátíu ár, uppreiknað til nóvember 2007. Samkvæmt ákærunni sem þingfest hefur verið er tannlækninum gefið að sök á hafa á árunum 2003 til 2006 svikið út rúmar 129 þúsund krónur vegna 34 tannviðgerða í ellefu einstaklingum. Sjúkratryggingar Íslands gera einkaréttarkröfu í málinu um að tannlækninum verði gert að endur­greiða mest ríflega 23 milljónir króna en minnst 129.412 krónur.

Fimm vikum áður en tannlækninum var birt ákæran fékk hann bréf frá Sjúkratryggingum þess efnis að ekki yrði um að ræða frekari endurgreiðslur frá stofnuninni vegna tannlæknisverka hans.

Verjandi tannlæknisins hefur kært ákvörðunina og segir hana ólögmæta. Sjúkratryggingar grundvalli hana meðal annars á nýjum reglum í reglugerð frá 15. september 2010.

„Nýju reglunum frá því 15. september verður einungis beitt um atvik eða ástand sem upp hefur komið frá því að reglurnar tóku gildi,“ útskýrir Gestur og bendir á að hver maður eigi rétt á að teljast saklaus nema sekt hans sé sönnuð fyrir dómi.

Reynir Jónsson, tryggingatannlæknir hjá Tryggingastofnun, hefur ekki viljað tjá sig um málið, að hluta né í heild, þegar eftir því hefur verið leitað.

jss@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×