Erlent

Tillögur Trump um notkun sótthreinsiefnis til lækninga gagnrýndar harðlega

Kristín Ólafsdóttir og Andri Eysteinsson skrifa
Donald Trump ætlar sér að berjast gegn rannsóknum Demókrata.
Donald Trump ætlar sér að berjast gegn rannsóknum Demókrata. AP/Evan Vucci

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sætt harðri gagnrýni sérfræðinga eftir að hann lagði það til að rannsakað yrði hvort hægt væri að læknast af kórónuveirunni með því að dæla sótthreinsiefni í líkamann. Þá virðist hann einnig hafa velt því upp hvort ekki væri ráðlegt að lýsa útfjólubláum geislum á líkama Covid-sjúklinga. BBC greinir frá.

Trump bar tillögurnar upp á blaðamannafundi vegna veirunnar í gærkvöldi eftir að starfandi yfirmaður vísinda- og tæknideildar heimavarnarráðuneytisins kynnti niðurstöður rannsóknar, þar sem komið hefði í ljós að sólarljós og sótthreinsiefni á borð við klór veiki veiruna.

„Ef við skjótum sterku eða útfjólubláu ljósi á líkamann, það hefur ekki verið prófað en ég held þú hafir sagst ætla að prófa það,“ sagði forsetinn og beindi orðum sínum að Dr. Deboruh Birx sem farið hefur fyrir baráttunni gegn veirunni.

Sagði forsetinn þá að áhugavert væri að athuga hvort sótthreinsiefni, dælt inn í líkamann, myndi hafa áhrif á veiruna. Forsetinn spurði Birx hvort ljós og hitameðferð hafi verið rannsökuð.

„Ekki sem meðferð við veirunni. Klárlega er hár líkamshiti góður, þegar líkamshitinn er hár, hjálpar það líkamanum að berjast gegn veirunni. Ég hef ekki séð ljós og hitameðferð,“ sagði Birx áður en forsetinn sagðist telja að það væri gott að rannsaka þá meðferð.

Læknar sem fjölmiðlar vestanhafs hafa rætt við hafa látið hafa eftir sér að tillögur Trumps, einkum er varða sótthreinsiefnið, séu óábyrgar og jafnvel hættulegar.

Í samtali við Bloomberg sagði lungnasérfræðingurinn John Balmes að ekki væri um að ræða góða hugmynd. „Að anda að sér klór væri það versta sem þú getur gert fyrir lungnastarfsemina. Það er ekki óhætt, ekki einu sinni í litlu magni. Þetta er fáránleg hugmynd,“ sagði Balmes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×