Erlent

Telja dauðsföll í Ekvador fimmtán sinnum fleiri en stjórnvöld segja

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn í hlífðarbúningi flytja lík manneskju sem lést úr Covid-19 í borginni Guayaquil í Ekvador 17. apríl.
Lögreglumenn í hlífðarbúningi flytja lík manneskju sem lést úr Covid-19 í borginni Guayaquil í Ekvador 17. apríl. Vísir/EPA

Fjöldi látinna í Ekvador er allt að fimmtán sinnum hærri en opinberar tölur um dauðsföll af völdum kórónuveirufaraldursins segja, samkvæmt greiningu New York Times á gögnum um dánartíðni í landinu. Miðað við þær tölur er Ekvador einn miðpunkta faraldursins í heiminum.

Samkvæmt opinberum tölum höfðu 503 látist af völdum Covid-19, sjúkdómsins sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur, 15. apríl. Engu að síður voru rúmlega 7.600 fleiri dauðsföll frá 1. mars til 15. apríl en að meðaltali á sama tímabili undanfarin ár.

New York Times segir að tölfræði um dánartíðni í miðjum faraldri sé ónákvæm og umframdauðsföllin séu bæði fólk sem lést úr Covid-19 en einnig af öðrum sökum, þar á meðal þeir sem hafa látist vegna þess að þeir komust að ekki að á yfirfullum sjúkrahúsum vegna veirunnar.

Þrefalt fleiri létust í landinu en vanalega fyrstu tvær vikurnar í apríl þegar greind smit voru í hámarki. Það er enn meiri aukning en átti sér stað á Spáni og Bretlandi sem hafa orðið illa úti í faraldrinum.

Stjórnvöld hafa gengist við því að opinberar tölur gefi ekki rétta mynd af mannskaðanum í faraldrinum frá upphafi. Lenín Moreno, forseti, sagði í ávarpi í byrjun apríl að jafnt tölur um dauðsföll sem nýt smit næðu ekki utan um raunveruleikann. Ríkisstjórn hans glímir á sama tíma við verstu efnahagskreppu Ekvadors í áratugi.

Útgöngubann sem stjórnvöld komu á um miðjan mars virðist byrjað að bera árangur. Nýjum smitum sem greinast á dag er hætt að fjölga. Þá létust færri í borginni Guayaquil í síðustu viku en áður. Þar var dánartíðnin áttfalt hærri fyrstu tvær vikurnar í apríl en í venjulegu árferði. Það er tvöfalt meira en gerðist í New York í Bandaríkjunum sem er miðpunktur faraldursins þar.

Engar augljósar ástæður er sagðar fyrir því að Ekvador verði verr úti í faraldrinum en önnur lönd. Þjóðin er tiltölulega ung og flestir búa í strjálbýli sem ætti annars að draga úr áhættu.Vísir/EPA

Líkunum staflað upp eins og kartöflupokum

Faraldurinn hefur valdið miklum usla í Ekvador. Aðeins nokkrum vikum eftir að fyrsta tilfellið kom upp í Guayaquil voru sjúkrahús yfirfull og lík hrúguðust upp úti á götum þar sem kerfið hafði ekki undan að grafa þau eða brenna. Margar fjölskyldur gripu til þess örþrifaráðs að grafa ástvini sína í kistum úr pappa.

Læknir á Teodoro Maldonado Carbo-sjúkrahúsinu í borginni sagði New York Times að ástandið þar væri eins og úr hryllingsmynd. Lík sitja í hjólastólum, liggja á sjúkrabörum og á gólfinu á bráðadeildinni. Sumt starfsfólk neiti að fara þangað inn vegna nályktarinnar.

Darío Figueroa, vinnumaður í Guayaquil, lýsir því þegar hann leitaði að líki móður sinnar í yfirfullu líkhúsi Guasamo Sur-sjúkrahússins í tólf klukkutíma seint í mars. Móðir hans lést við komuna á sjúkrahús þangað sem hún leitaði vegna öndunarfærasýkingar. Aldrei var tekið sýni úr henni vegna veirunnar.

Figeuroa klæddist heimatilbúnum hlífðarklæðnaði úr ruslapokum. Í líkhúsinu sá hann hundruð rotnandi líka í stöflum eins og kartöflupokar.

„Fnykurinn var óþolandi. Líkhúsið var stútfullt, gangarnir líka, þegar voru mjög langir og fullir af líkum. Biðstofan var líka full af líkum,“ segir Figueroa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×