Mikið fjölmenni safnaðist saman fyrir framan Staples Center, heimavöll Los Angeles Lakers, eftir að fréttir bárust af fráfalli Kobes Bryant.
Kobe lést í þyrluslysi í gær ásamt 13 ára dóttur sinni og sjö öðrum.
Hann lék með Lakers í 20 ár og varð fimm sinnum NBA-meistari með liðinu. Hann er talinn einn besti körfuboltamaður allra tíma.
„Fyrir mér var hann borgarstjóri Los Angeles. Margir segja að hluti af Los Angeles hafi dáið í dag. Ég veit að ég á eftir að fella mörg tár næstu daga,“ sagði Rene Sotomayor, einn fjölmargra sem söfnuðust saman fyrir utan Staples Center til að votta Kobe virðingu sína.
„Kobe er Los Angeles, jafnvel þótt hann sé frá Philly. Hann fór til Spánar og ferðaðist um en hann er samt Los Angeles. Þetta er heimili hans. Það þarf að reisa styttu af honum,“ sagði William Anderson, annar aðdáandi Kobes og stuðningsmaður Lakers.
Myndir frá vökunni fyrir utan Staples Center má sjá hér fyrir neðan.