Innlent

Reyndu að eyða myndbandi af nauðguninni

Snærós Sindradóttir skrifar
Kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald hafnað - Mennirnir voru allir leiddir fyrir dómara í gær en þeir hafa dvalið í einangrun á Litla-Hrauni síðan málið kom upp.
Kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald hafnað - Mennirnir voru allir leiddir fyrir dómara í gær en þeir hafa dvalið í einangrun á Litla-Hrauni síðan málið kom upp. VÍSIR/Vilelm
Þegar fimmmenningarnir sem grunaðir eru um að hafa nauðgað sextán ára stúlku komust að því að hún ætlaði að kæra þá til lögreglu reyndu þeir að eyða öllum samskiptum sem þeir höfðu átt um atvikið á Facebook.

Mennirnir reyndu líka að eyða myndbandsupptöku sem einn þeirra hafði tekið á síma sinn á meðan verknaðurinn átti sér stað.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafði maðurinn sem tók myndbandið upp samband við fórnarlambið eftir atvikið og bað hana afsökunar á því. Við vini sína sagði hann að þeir þyrftu engar áhyggjur að hafa því myndbandinu hefði verið eytt. „Það sem er gott núna er að enginn getur séð myndbandið. Engin sönnun,“ sagði hann.

Myndbandið fylgdi kæru stúlkunnar til lögreglu. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er það sérstaklega óhugnanlegt og styður frásögn stúlkunnar að fullu.

Stúlkan lýsti því í skýrslutökum hjá lögreglu að hún hefði reynt að sporna við verknaðinum en gefist að endingu upp. Vonlaust hefði verið að komast undan mönnunum enda voru þeir fimm talsins.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins stóð nauðgunin yfir í klukkustund. Einn mannanna hóf að koma vilja sínum fram við stúlkuna en svo bættust hinir fjórir mennirnir við einn af öðrum.

Eins og áður sagði ræddu fimmmenningarnir saman um verknaðinn á Facebook í kjölfar hans. Þeir ræddu meðal annars að einn hinna kærðu í málinu hefði verið hræddur á meðan atvikið átti sér stað en svo virðist sem mennirnir séu sammála um að honum hafi verið frjálst að hætta þátttöku sinni hvenær sem er. Það gerði hann þó ekki.

Mennirnir fimm hafa allir gengist við því að hafa haft samfarir við stúlkuna umrætt kvöld en neita því að um nauðgun hafi verið að ræða. Þeir hafa lýst því að þeir töldu að stúlkan væri verknaðinum samþykk vegna þess að hún sagði ekki neitt og vegna þess að hún hljóp ekki í burtu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins telur lögreglan öll gögn málsins styðja framburð stúlkunnar. Áverkar á líkama hennar sem komu í ljós við læknisskoðun renna jafnframt stoðum undir atburðalýsingu stúlkunnar.

Þá þykir framburður stúlkunnar bæði skýr og greinargóður.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að ákæruvaldinu þyki fimmmenningunum ekki bera saman um atvik kvöldsins. Framburður þeirra þyki ótrúverðugur og hann fari á skjön við þau gögn sem liggja fyrir í málinu.

Mönnunum var sleppt úr gæsluvarðhaldi í gær. Lögreglan fór fram á að mennirnir sætu áfram í gæsluvarðhaldi vegna almannahagsmuna en héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu. Lögreglan hefur kært úrskurðinn til Hæstaréttar og krefst þess að mennirnir sitji í mánuð í gæsluvarðhaldi til viðbótar.


Tengdar fréttir

Stúlkan lagði sjálf fram myndbandsupptökuna

Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir fjórum af fimm piltum sem grunaðir eru um að hafa nauðgað sextán ára stúlku. Myndbandsupptaka er sögð styðja framburð hennar um atvikið.

Fimm piltar handteknir vegna hópnauðgunar

Fórnarlambið er sextán ára menntaskólastúlka. Dómari í héraðsdómi hefur tekið sér frest til morguns til að ákveða um gæsluvarðhald. Ungu mennirnir eru í haldi lögreglu og verða vistaðir í fangageymslum í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×