Skoðun

Raunverulegir þolendur flóttamannavandans

Atli Viðar Thorstensen skrifar
Á síðasta ári leitaði rúm milljón flóttamanna skjóls í Evrópu. Langflestir þeirra koma frá stríðshrjáðum ríkjum á borð við Sýrland, Afganistan, Írak og Sómalíu. En eru milljón flóttamenn margir flóttamenn? Til að svara því er ef til vill rétt að setja hlutina í samhengi. Samhengið skiptir máli.

Þegar haft er í huga að í heiminum eru alls um 60 milljónir flóttamanna er milljón ekki svo mikið. Og heldur ekki þegar haft er í huga að Evrópa er auðug heimsálfa þar sem eru yfir 700 milljónir íbúa.

En hvað með fjölda flóttamanna á Íslandi? Eru 355 hælisleitendur sem óskuðu hælis hérlendis á síðasta ári há tala eða talan 700 sem er líklegur fjöldi hælisleitenda á þessu ári? Þegar haft er í huga að yfir milljón ferðamenn komu til Íslands á síðasta ári eru 700 hælisleitendur ekki ýkja há tala. Og kannski ekki heldur þegar haft er í huga að á síðasta ári komu fleiri ferðamenn til Íslands heldur en leituðu hælis í allri álfunni.

Flestir flóttamenn í eigin landi

Það er vert að undirstrika að flóttafólk er einungis venjulegt fólk sem hefur lent í óvenjulegum aðstæðum og að langflestir flóttamenn eru flóttamenn í eigin landi. Á eftir þeim má nefna þann hóp flóttamanna leitar skjóls í nágrannaríkjum þar sem aðstæður geta verið bágbornar. Þar gæti jafnvel verið óstöðugt ástand í kjölfar vopnaðra átaka sem takmarka getu til að veita aðstoð.

Sem dæmi má nefna að um þessar mundir búa tæpar tvær milljónir flóttamanna í smáríkinu Líbanon sem telur venjulega tæpar sex milljónir íbúa. Af þessum tveimur milljónum er rúm ein milljón Sýrlendinga.

Það er flóttamannavandi í Evrópu. Vandi sem er til kominn vegna þess að fólk hefur flúið vopnuð átök í heimalöndum sínum. En áttum okkur á því að það eru ekki Evrópubúar sem þurfa að finna fyrir þessum vanda að neinu teljandi marki. Og hvað þá Íslendingar. Fólkið sem neyddist til að yfirgefa heimili sín, lífsviðurværi, fjölskyldu og ástvini. Það finnur fyrir vandanum.




Skoðun

Sjá meira


×