Innlent

Stjórnarþingmaður styður ekki fjárlagafrumvarpið

Lilja Mósesdóttir segist sannfæringar sinnar ekki geta stutt fjárlagafrumvarpið í þeirri mynd sem það er
Lilja Mósesdóttir segist sannfæringar sinnar ekki geta stutt fjárlagafrumvarpið í þeirri mynd sem það er

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður viðskiptanefndar Alþingis, ætlar að sitja hjá þegar þingmenn greiða atkvæði um fjárlagafrumvarpið. „Ég er núna búin að velta fyrir mér í margar vikur hvort ég geti sannfæringar minnar vegna samþykkt þessi fjárlög sem núna eru til umfjöllunar í þinginu," segir Lilja.

Hún var gestur Heimis Karlssonar og Kolbrúnar Björnsdóttur Í bítinu á Bylgjunni í morgun, ásamt Pétri Blöndal þingmanni Sjálfstæðisflokks, þar sem þau ræddu hið pólitíska landslag og þá sérstaklega fjárlögin.

Umræða um fjárlögin stóð yfir á Alþingi til klukkan fjögur í nótt. Lilja segir að hún hafi þar haldið ræðu þar sem hún lýsti því yfir að hún gæti ekki stutt fjárlagafrumvarpið í þeirri mynd sem það er nú.

„Hagvaxtarforsendur frumvarpsins eru brostnar," segir Lilja. Hún bendir á að hún hafi hvatt til þess að dregið verði úr fyrirhuguðum niðurskurði, þá sérstaklega í heilbrigðisþjónustu, menntamálum og félagsmálum.

Lilja segist ennfremur vilja að lægstu bætur almannatryggingakerfisins hækki því það sé ólíðandi að sífellt stærri hópur fólks þurfi að leita til hjálparsamtaka til að hafa í sig og á.

Pétur segir það alvarlegt mál að stjórnarþingmaður lýsi því yfir að hún ætli ekki að styðja fjárlagafrumvarp, og taldi það lýsandi fyrir þann skort á samráði sem að hans mati hefur einkennt starf sitjandi ríkisstjórnar.

Hlusta má á upptöku af þættinum með því að smella hér, eða á tengilinn hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×