Fótbolti

Dudek fékk loksins að spila en kjálkabrotnaði í fyrri hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Jerzy Dudek.
Cristiano Ronaldo og Jerzy Dudek. Mynd/AP
Pólski markvörðurinn Jerzy Dudek hefur ekki fengið mörg tækifæri hjá Real Madrid enda að berjast um sæti í aðalliðinu við Iker Casillas, fyrirliða Heims- og Evrópumeistara Spánverja.

Dudek fékk þó loksins að spila í gær þegar Real Madrid mætti Auxerre í þýðingalitlum lokaleik liðanna í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Hann entist aðeins í tæpar 45 mínútur því hann lenti í slæmu samstuði við leikmann franska liðsins rétt fyrir hálfeik.

Antonio Adán kom í markið í staðinn fyrir Dudek og eftir myndatöku kom í ljós að pólski markvörðurinn hafði kjálkabrotnað og verður frá næstu sex vikurnar.

Jerzy Dudek komst aftur í fréttirnar á dögunum þegar hann bar skilboð frá Jose Mourinho til Iker Casillas um að þeir Xabi Alonso og Sergio Ramos ætti að ná sér viljandi í rautt spjald.

Dudek lék með Liverpool frá 2001 og 2007 en kom til Real Madrid 2007. Hann hefur aðeins fengið að spila fimmtán leiki í öllum keppnum á þessum fjórum tímabilum og leikurinn í gær var hans fyrsti síðan að Jose Mourinho tók við Real-liðinu í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×