Innlent

Þáðu netaveiðistyrk frá Evrópusambandinu

Orri Vigfússon. Skotar og Norðmenn hafa alltaf verið til vandræða, segir formaður NASF.
Fréttablaðið/ANton
Orri Vigfússon. Skotar og Norðmenn hafa alltaf verið til vandræða, segir formaður NASF. Fréttablaðið/ANton

Færeyingar eru ævareiðir Skotum en fyrirtæki þar í landi hefur þegið styrk Evrópusambandsins upp á hundrað þúsund pund, jafnvirði átján milljóna króna. Fyrirtækið veiðir lax í net.

Færeyingar segja styrkveitinguna geta stefnt alþjóðlegum samningum um verndun laxastofna í hættu. Í netútgáfu breska dagblaðsins Times í gær kom fram að reiði Færeyinga sé slík að þeir hóti að hefja veiðar á laxi í net á ný.

Orri Vigfússon, formaður Norður-Atlantshafslaxasjóðsins (NASF), segir ólíklegt að Færeyingar hóti þessu og hljóti málið að vera byggt á misskilningi Times. Færeyingar hafi gert verndarsamning við NASF árið 1991 og hafi þeir leyfi til að veiða 550 tonn af laxi á 26 línubátum á sjó.

„Færeyingar hugsa mikið um gæði. Netveiddur lax er verri og lítið fæst fyrir hann miðað við línuveiddan fisk,“ segir Orri og efast stórlega um að Færeyingar hlaupi til og byrja að veiða lax í net í allra nánustu framtíð.

Hann bendir á að NASF hafi keypt upp netarétt við strendur flestra landa sem liggi við Atlantshaf. Skotar og Norðmenn hafi alltaf verið til vandræða, þeir vilji þjóðnýta réttindi landeigenda að ám og vötnum. „Skotar halda alltaf að allt sé frítt. Þegar þeir greiddu í sjóðinn okkar þá söfnuðu þeir í hann í Bretlandi,“ segir Orri. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×