Innlent

Handrit.is hlýtur Hagnýtingarverðlaun HÍ

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, ásamt verðlaunahöfum og Rögnvaldi Ólafssyni, formanni dómnefndar.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, ásamt verðlaunahöfum og Rögnvaldi Ólafssyni, formanni dómnefndar.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, afhenti í dag Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands en verðlaunin voru nú afhent í tólfta sinn. Að þessu sinni bárust 13 hugmyndir af ýmsum fræðasviðum Háskóla Íslands.

Hægt að leika sér handritin

Fyrstu verðlaun hlaut tillaga Sigurgeirs Steingrímssonar vísindamanns á Árnastofnun, Arnar Hrafnkelssonar, forstöðumanns handritadeildar Landsbókasafns og Matthew Driscoll forstöðumanns Árnastofnunar í Kaupmannahöfn. Tillagan kallast: „handrit.is - Rannsóknargagnagrunnur og samskrá um íslensk og norræn handrit."

Verkefnið er á sviði norrænna fræða og er nútíma gagnagrunnur um íslensk og norræn handrit. Beitt er nútímatækni á þann veg að hægt er að tengja saman ólíkar upplýsingar á nýstárlegan hátt. Hægt er að taka hvert handrit og tengja það við upplýsingar af ólíkum toga m.a. staðsetningar og aðrar landfræðilegar og fornleifafræðilegar upplýsingar. Auk þess getur hver og einn notað gagnagrunninn til þess að leika sér með handritin, bæta við eigin texta, athugasemdum, nýta myndskreytingar og raða ólíkum atriðum saman að vild. Gagnagrunnurinn verður hvort tveggja tæki til fræðilegra athugana og persónulegt verkfæri til eigin sköpunar. Með lausninni eru handritin gerð aðgengileg öllum.



Hægt að ná lýsingu yfir stór svæði


Verkefnið „Ný tækni til flúorljómunarrannsókna á lifandi frumum" hlaut önnur verðlaun. Tæknin byggir á notkun örflögu sem er með eiginleikana að ljósörva einungis þunnt lag nálægt yfirborði flögunnar (100-2000 nm). Frumum, með flúrljómandi sameindum, er komið fyrir á örflögunni og ljósörvun á sér eingöngu stað í þeim hluta frumunnar sem næst er yfirborðinu. Með þessum hætti má bæði auka greinigæði mynda og skoða einstakar flúorljómandi agnir innan frumunnar sem veita m.a. upplýsingar um efnaflutning í eða við frumuhimnu. Með örflögunum má ná fram jafnri lýsingu yfir stór svæði, notast má við margar bylgjulengdir til örvunar og hægt er að hanna flögurnar með mismunandi örvunardýpt sem nær frá um 100 nm til 2000 nm. Björn Agnarsson doktorsnemi við Háskóla Íslands er höfundur tillögunnar ásamt Kristjáni Leóssyni eðlisfræðingi á Raunvísindastofnun.

Frasar.net - mætir þörfum notendenda umfram orðabækur

Þriðju verðlaun hlaut hugmynd Auðar Hauksdóttur dósents í dönsku við Háskóla Íslands „frasar.net. Danskt - íslenskt máltæki." Hugmyndin er að mæta þörfum notenda langt umfram hefðbundnar orðabækur. Í fyrsta lagi hefur frasar.net að geyma mun fleiri dönsk orðtök með skýringum á dönsku og íslensku og notkunardæmum en finna má í þeim dansk-íslenskum og íslensk-dönskum tvímála orðabókum sem nú eru fáanlegar. Í öðru lagi gefur vefsvæðið kost á að finna sambærileg orðtök í málunum þó að kjarnaorðin séu ekki þau sömu. Þá fylgja lausninni upplýsingar til notenda, þegar líkindi eða ólíkindi með íslensku og dönsku geta valdið misskilningi eða leitt til misvísandi eða rangrar málnotkunar. Með tillögunni hefur tekist að afmarka mörg sambærileg orðtakapör, t.d. íslenska orðtakið Fara yfir lækinn eftir vatni/að sækja vatn og danska orðtakið Gå over åen efter vand, frá toppi til táar/fra top til tå, en hefðbundnar orðabækur draga ekki fram slík líkindi. Þá hafa lík orðtakapör verið borin saman og skráðar leiðbeiningar til notenda þegar hætta er á misskilningi eða villum, t.d. þegar yfirborðsmyndin er ólík en merking mjög lík eða hin sama, sbr. gera úlfalda úr mýflugu/gøre myg til en elefant, e-ð fer í hundana/ngt. går i fisk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×