Erlent

Hatursorðræða framvegis fjarlægð innan sólarhrings

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Heiko Maas, dómsmálaráðherra Þýskalands, og Richard Allen, einn af yfirmönnum Facebook í Evrópu, á blaðamannafundi í dag.
Heiko Maas, dómsmálaráðherra Þýskalands, og Richard Allen, einn af yfirmönnum Facebook í Evrópu, á blaðamannafundi í dag. vísir/epa
Hatursorðræða á netinu verður framvegis fjarlægð innan tuttugu og fjögurra klukkustunda í Þýskalandi. Þýsk yfirvöld náðu í dag samkomulagi þess efnis við netrisana Facebook, Twitter og Google.

Heiko Maas, dómsmálaráðherra Þýskalands, segir ákvörðunina tekna í ljósi aukinna kynþáttafordóma þar í landi. Sérstakur hópur hafi verið skipaður sem muni fylgjast með óviðeigandi umræðu á netinu og í kjölfarið fjarlægja hana. Hins vegar þurfi netverjar sjálfir að tilkynna slíkar umræður.

Samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum hafa fordómar í garð útlendinga aukist umtalsvert í Þýskalandi. Yfirvöld hafa á þessu ári tekið á móti mörg hundruð þúsund flóttamönnum og hefur Angela Merkel Þýskalandskanslari ítrekað sagt að Þjóðverjar muni taka við öllum þeim flóttamönnum sem til Þýskalands vilja koma. Jafnvel þó reiknað sé með að þeir verði yfir milljón á þessu ári, sem brátt er á enda komið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×