Erlent

Engar vísbendingar um að fjársjóðslest Nasista sé fundin

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísindamennirnir segja að mögulega séu göng á svæðinu, en niðurstöður þeirra gefa ekki til kynna að þar sé lest að finna.
Vísindamennirnir segja að mögulega séu göng á svæðinu, en niðurstöður þeirra gefa ekki til kynna að þar sé lest að finna. Vísir/AFP
Rannsakendur segjast ekki hafa fundið vísbendingar um að fjársjóðslest Nasista hafi fundist nærri Walbrzych í Póllandi, nærri landamærunum við Þýskaland. Þeir segja mögulegt að lestarteinar hafi fundist neðanjarðargöngum en engin ummerki séu um lest. Í ágúst sögðust tveir fjársjóðsleitarmenn hafa fundið lestina.

Sagan segir að Nasistar hafi notað lestina til að flytja gull og gersemar frá Póllandi undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1945. Hún hafi verið falin neðanjarðar þegar hermenn sovétríkjanna nálguðust.

Vitað er að Nasistar byggðu mörg og löng göng nærri Walbrzych og þúsundir fanga létust við að grafa þau.

Mennirnir tveir sem sögðust hafa fundið lestina bentu á 35 kílómetra langan kafla lestarteina þar sem þeir sögðu lestina vera falda neðanjarðar. Vísindamenn rannsökuðu þann kafla í einn mánuð með málmleitartækjum, hitamyndavélum og radartækjum.

Fjársjóðsleitarmennirnir tveir, Piotr Koper og Andreas Richter, sem sögðust hafa fundið lestina.Vísir/EPA
Skömmu seinna sagði menningarmálaráðherra Póllands að eftir að hafa skoðað radarmyndir af svæðinu væri hann 99 prósent sannfærður um að lestin væri þarna.

Sjá einnig: Segja vísbendingar um að fjársjóðslest nasista sé í raun til

Janusz Madej, prófessor, sagði þó að á blaðamannafundi í dag að rannsókn hefði leitt í ljós að mögulega væru göng á svæðinu, en þar væri engin lest. Fjársjóðsleitarmennirnir tveir, Piotr Koper og Andreas Richter, eru þó ekki sannfærðir.

Koper var á blaðamannafundinum og gagnrýndi hann rannsóknina. Hann sagðist enn trúa því að lestin væri þarna. Upplýsingarnar um veru lestarinnar á svæðinu eru sagðar koma frá manni sem á dánarbeði sínu sagðist hafa hjálpað til við að fela lestina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×