Knattspyrnuþjálfarinn Logi Ólafsson var gestur Ríkharðs Guðnasonar í Sportinu í kvöld á Stöð 2 Sport í gær og fór þar yfir langan og glæsilegan þjálfaraferil sinn.
Logi ræddi meðal annars landsliðsþjálfarastarfið og þá sérstaklega ákvörðun sem hann tók í Tallin í Eistlandi 24. apríl 1996.
Logi valdi þá feðgana Arnór Guðjohnsen og Eið Smára Guðjohnsen í landsliðshópinn. Arnór var í byrjunarliðinu en Eiður Smári á bekknum. Á 62. mínútu kallaði Logi á Eið Smára og sendi hann inn á völlinn. Hann ákvað hins vegar að skipta honum inn á fyrir pabba sinn.
„Ég er reyndar með það á samviskunni að láta þá aldrei spila saman í alvöru landsleik,“ sagði Logi Ólafsson við Ríkharð í Sportinu í kvöld á Stöð 2 Sport í gær.
Ísland fékk tækifæri til að skrifa knattspyrnusöguna því aldrei áður höfðu feðgar spilað saman í alvöru landsleik.
Arnór Guðjohnsen var þarna leikmaður Örebro SK í Svíþjóð og að spila sinn 65. A-landsleik á ferlinum. Eiður Smári var aftur á móti kominn til hollenska liðsins PSV Eindhoven og var að spila sinn fyrsta landsleik.
„Það gerðist nú bara þannig að við vildum hafa þetta þannig að fyrsti landsleikur þeirra saman væri á Íslandi. Hann kom inn á fyrir pabba sinn á móti Eistlandi. Síðan ákveður KSÍ það að Eiður eigi að fara með undir átján ára landsliði Íslands til Írlands,“ sagði Logi Ólafsson.
Þar gripu örlögin í taumana og Logi fékk ekki tækifæri til að velja Eið Smára í næsta verkefni.
„Þar ökklabrotnar Eiður og var frá knattspyrnu í nokkur ár. Þá var Arnór fallinn á tíma. Því miður. Þetta var leiðinlegt og það er stundum erfitt að sjá ekki fyrir óorna hluti því þá lendur maður í svona,“ sagði Logi eins og sjá má hér fyrir neðan.
Arnór Guðjohnsen lék sinn 73. og síðasta A-landsleik á Laugardalsvellinum 11.október 1997 og skoraði þá sitt fjórtánda mark fyrir landsliðið í sigri á Liechtenstein.
Næsti landsleikur Eiðs Smára var hins vegar ekki fyrr tæpum tveimur árum síðar eða á móti Andorra á Laugardalsvellinum 4. september 1999. Eiður Smári kom þá inn á sem varamaður og skoraði. Eiður Smári var þá kominn aftur af stað en nú hjá enska liðinu Bolton.