Erlent

Þjóðfylkingin sigraði í fyrstu umferð frönsku sveitar­stjórnar­kosninganna

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, Marine Le Pen, í aðdraganda kosninganna.
Leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, Marine Le Pen, í aðdraganda kosninganna. Vísir/AFP
Franska Þjóðfylkingin er sigurvegari fyrstu umferðar sveitarstjórnarkosninganna sem fram fóru í landinu í dag. Flokknum hafði verið spáð góðu gengi fyrir kosningarnar. 

Útgönguspár benda til þess að flokkurinn hafi fengið flest atkvæði í sex af þrettán svæðum. Þá virðist vera sem mið-hægri flokkur Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseta Frakklands, hafi fengið næst mestan stuðning, meiri en Sósíalistaflokkur Francois Hollande forseta.

Kosningarnar eru þær fyrstu sem fram fara í landinu eftir að 130 voru drepnir í hryðjuverkaárás ISIS á París, höfuðborg landsins, í síðasta mánuði.

BBC greinir frá því að útgönguspárnar sýni 30,8 prósenta stuðning við Þjóðfylkinguna, 27,2 prósent við Repúblikanaflokk Sarkozy og 22,7 prósent við sósíalistaflokk forsetans.

Eftir því sem leið á kvöldið ákvað sósíalistaflokkurinn að draga sig úr annarri umferð kosninganna á minnst tveimur svæðum. Næsta umferð kosninganna fer fram 13. desember næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×