Erlent

Gríðarleg sprenging í Vestur Viginíu

Jakob Bjarnar og Samúel Karl Ólason skrifa
Íbúar segja að eldurinn hafi farið í hundrað metra hæð.
Íbúar segja að eldurinn hafi farið í hundrað metra hæð. Vísir/AP
Rýma þurfti tvo bæi í Vestur Virginíu í Bandaríkjunum í gærkvöldi eftir að flutningalest fór út af sporinu með mikið magn af hráolíu í yfir hundrað tönkum. Gríðarleg sprenging varð í kjölfarið og mikið eldhaf blossaði upp.

Einn einstaklingur hefur mögulega fengið reykeitrun, en annars er ekki vitað um meiðsl á fólki. Hinsvegar varð gífurlegt tjón vegna sprengingarinnar, fjöldi bifreiða eyðilagðist og að minnsta kosti eitt hús hefur orðið eldinum að bráð. Þá fór mikið af olíunni út í nærliggjandi á sem síðan kviknaði í og logaði glatt fram eftir kvöldi með tilheyrandi mengun fyrir bæjarbúa sem voru hvattir til að yfirgefa heimili sín.

„Þetta var mjög ógnvænlegt. Það leit út eins og kjarnorkusprengja hefði sprungið,“ hefur AP fréttaveitan eftir íbúa á svæðinu.

Fjórtán til sautján tankar sprungu og minnst einn fór út í ána. Tveimur vatnshreinsistöðvum við ánna hefur verið lokað vegna slyssins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×