Fótbolti

Ekki sannfærandi hjá Manchester United - unnu Galati 2-0

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester United vann 2-0 sigur í röð á rúmenska smáliðinu Otelul Galati á Old Trafford í 4. umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld en þessi sigur skilaði United-liðinu á topp C-riðilsins þar sem að Benfica náði aðeins jafntefli á heimavelli á móti Basel.

Antonio Valencia og Wayne Rooney skoruðu mörk United í sitthvorum enda leiksins en Rooney spilaði á miðjunni í þessum leik.

Manchester United vann 1-0 útisigur á Everton í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi en þetta eru tveir fyrstu alvöru leikir liðsins eftir að liðið steinlá 1-6 fyrir nágrönnum sínum í Manchester City.

Leikur Manchester United  var langt frá því að vera sannfærandi en liðið gerði einungis það sem þurfti til að landa þremur stigum á móti botnliði riðilsins en Rúmenarnir hafa tapað öllum sínum leikjum.

Antonio Valencia kom Manchester United í 1-0 strax á 8. mínútu með skoti af stuttu færi eftir að Michael Owen missti af fyrirgjöf Phil Jones.

Michael Owen dugði hinsvegar aðeins í rétt rúmar tíu mínútur og fór meiddur af velli þremur mínútum eftir markið.

Wayne Rooney bætti síðan við öðru marki við á 87. mínútu en skot hans hafi viðkomu í varnarmanni á leið sinni í markið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×