Erlent

Segir Tyrki ekki lengur munu stöðva sýr­lenska flótta­menn á leið til Evrópu

Atli Ísleifsson skrifar
Á landamærum Tyrklands og Grikklands í Pazarkule.
Á landamærum Tyrklands og Grikklands í Pazarkule. AP/Ergin Yildiz

Tyrknesk yfirvöld munu ekki lengur stöðva för sýrlenskra flóttamanna sem reyna að ná til Evrópu. Þetta hefur Reuters eftir háttsettum en ónafngreindum heimildarmanni innan tyrkneska stjórnkerfisins.

Fréttirnar koma í kjölfar þess að 33 tyrkneskir hermenn hið minnsta létu lífið í árásum sýrlenska stjórnarhersins í Idlib í norðvesturhluta Sýrlands þar sem uppreisnarhópar sem njóta stuðnings Tyrkja ráða ríkjum.

BBC segir frá því að tyrkneski herinn hafi í kjölfar árás Sýrlandshers ráðist á um tvö hundruð skotmörk sýrlenska hersins.

Búist er við að átökin í norðvesturhluta Sýrlands nú komi til með að leiða til nýrrar öldu flóttamanna til Evrópu. Árið 2016 skuldbundu Tyrkir sig til að stöðva för flóttafólks á leið til Evrópu í skiptum fyrir fjárhagslegan stuðning frá Evrópusambandinu.

Um 3,7 milljónir sýrlenskra flóttamanna hafast nú við í Tyrklandi, en Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur ítrekað hótað því að opna landamærin.

Í frétt Reuters er haft eftir heimildarmanninum að tyrknesk lögregla, strandgæsla og landamæraverðir hafi fengið boð um að hleypa sýrlenskum flóttamönnum á leið til Evrópu í óhindrað í gegn. Þetta hefur þó ekki fengist opinberlega staðfest.

Tyrkneski herinn hefur sent þúsundir hermanna til Sýrlands að undanförnu og hefur Erdogan áður hótað því að hefja stórsókn til að stöðva aðgerðir Sýrlandshers í héraðinu.


Tengdar fréttir

Börn og kennarar létust í árásum á skóla og leikskóla í Idlib

Að minnsta kosti níu börn og þrír kennarar létu lífið í árásum á tíu skóla og leikskóla í Idlib í Sýrlandi í gær. Ted Chaiban, yfirmaður UNICEF í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, fordæmir árásirnar og segir fólk orðlaust yfir ofbeldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×