Innlent

Áramótaáætlun Ferðaþjónustu fatlaðra fyrir neðan allar hellur

Sveinn Arnarsson skrifar
„Okkur þykir þessi framkvæmd fyrir neðan allar hellur,“ segir Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfsbjargar, um það að Ferðaþjónusta fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu hætti akstri klukkan þrjú í dag, gamlársdag.

Strætó segir hins vegar að verklagið um þessi jól sé ekki frábrugðið því sem verið hafi. „Akstur á aðfangadag og gamlársdag er miðaður við að síðustu farþegar fari um borð klukkan 15.00. Eftir þann tíma er farþegum vísað á leigubifreiðastöðvar eins og öðrum farþegum almenningssamgangna,“ segir Erlendur Pálsson, upplýsingafulltrúi Strætó.

Í þjónustulýsingu fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra segir að akstur á stórhátíðardögum sé eins og á sunnudögum eða frá 11 að morgni til miðnættis. Strætó segir þá klásúlu ekki eiga við um aðfangadag og gamlársdag.

„Í raun er Ferðaþjónusta fatlaðra haldreipi margra fatlaðra til að verjast einangrun og margir stóla á þessa þjónustu. Það er því mjög leiðinlegt ef einhverjir þurfa að sitja heima og komast ekki leiðar sinnar um áramótin,“ segir formaður Sjálfsbjargar. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×