Erlent

Tekist á um lánshæfismat

Obama Bandaríkjaforseti óskaði eftir því í ávarpi sínu í dag að þingmenn Bandaríkjanna legðust á eitt við að fjölga störfum í landinu eftir að matsfyrirtækið Standard og Poors lækkaði lánshæfismat Bandaríkjanna úr efsta þrepi í það næstefsta.

Lækkun á lánshæfismati Bandaríkjanna er nú eitt helsta þrætuepli stjórnmálamanna vestanhafs. Jim DeMint, öldungardeildarþingmaður úr röðum repúblikana, krafðist þess að Barack Obama bandaríkjaforseti víki Timothy Geithner, fjármálaráðherra úr embætti.

Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, segir lánshæfismatseinkunina sýna þörfina á því að ná tökum á ríkisfjármálunum með samblandi á ríkisútgjöldum og tekjuaukningu.

Í ávarpi sínu kallaði hins vegar Obama Bandaríkjaforseti eftir því að allir stjórnmálamenn leggist á eitt við að efla bandaríska hagkerfið: „Það er mikilvægt. Við verðum að gæta þess að ríkið lifi ekki um efni fram, alveg eins og fjölskyldurnar gera. Til lengri tíma litið er heilbrigði efnahagslífsins undir því komið."

Hann hvatti jafnframt bandaríska þingmenn til að taka höndum saman um að fjölga störfum í Bandaríkjunum og efla bandaríska framleiðslu.

„Það er kominn tími til að þingið afgreiði loksins viðskiptasamninga sem myndu hjálpa atvinnulausum að finna nýja vinnu og gerði fyrirtækjum kleift að selja fleiri framleiðsluvörur til landa í Asíu og Suður-Ameríku, vörur merktar þremur orðum: Framleitt í Bandaríkjunum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×