Fótbolti

Ráðherra styður að boltinn byrji að rúlla í maí

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn Bayern München eru eins og aðrir í Þýskalandi byrjaðir að æfa í minni hópum.
Leikmenn Bayern München eru eins og aðrir í Þýskalandi byrjaðir að æfa í minni hópum. VÍSIR/GETTY

Horst Seehofer, innanríkisráðherra Þýskalands, hefur lýst yfir stuðningi við það að keppni hefjist að nýju í þýska fótboltanum í þessum mánuði eftir hlé vegna kórónuveirufaraldursins.

Ljóst er að ekki verður spilað fyrir framan áhorfendur í sumar. Hlé hefur verið á keppni í þýsku 1. deildinni síðan um miðjan mars en liðin eru byrjuð að æfa saman í litlum hópum, eins og Alfreð Finnbogason hefur lýst en hann er leikmaður Augsburg. Á fundi ríkisstjórnar í vikunni verður tekin ákvörðun varðandi framhald keppnisíþrótta.

Þýsku deildarsamtökin vilja byrja aftur sem fyrst, stefndu fyrst á 9. maí en geta nú í besta falli horft til þess að hefja keppni á ný 16. maí. Samtökin hafa sett saman áætlun til að gæta að heilsu leikmanna og annarra sem að leiknum koma, sem felur í sér reglubundin próf. Í áætlununum er, samkvæmt Reuters, einnig talað um að ekki þurfi að setja heilu leikmannahópana í sóttkví þó að það greinist smit hjá leikmanni. Það leggst ekki eins vel í Seehofer sem segir allt liðið eiga að fara í sóttkví greinist smit.

„Mér finnst skynsemi í tímarammanum sem þýska deildin hefur sett fram og ég styð það að hefja keppni að nýju í maí. En fyrir mér er alveg á hreinu að deildin á ekki að njóta einhverra sérstakra forréttinda fram yfir aðra,“ sagði Seehofer við Bild.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×