Annar þeirra er hinn 36 ára gamli Adam Johnson frá Flórída sem sást bera ræðupúlt Nancy Pelosi, forseta fulltrúardeilar Bandaríkjaþings, út úr þingsal. Auk hans var Jacob Anthony Chansley frá Arizona færður í gæsluvarðhald í dag en margir kannast við hann sem manninn sem sást ber að ofan, með andlitsmálningu og höfuðbúnað sem virtist vera úr feldi.

Báðir eru ákærðir fyrir að hafa farið óleyfilega inn í þinghúsið og vera með óspektir í og við þingið. Fram kemur í umfjöllun Washington Post að Johnson sé einnig ákærður fyrir þjófnað á ríkiseigum en hann er sakaður um að hafa stolið áðurnefndu ræðupúlti.
Lögregla studdist við ljósmyndir og umfjöllun í fjölmiðlum þegar kom að því að bera kennsl á mennina.
Í gær var greint frá því að Richard Barnett, sem fór inn á skrifstofu Nancy Pelosi þar sem hann kom sér fyrir í sæti hennar, hafi verið handtekinn og ákærður fyrir brot á alríkislögum. Hinn sami sagðist hafa stolið pósti þingforsetans og skilið eftir skilaboð til hennar á skrifstofunni.