Umfjöllun og viðtöl: KR - Þór Þ. 77-107 | Þórsarar rústuðu meisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórsarar eru á mikilli siglingu þessa dagana.
Þórsarar eru á mikilli siglingu þessa dagana. vísir/Elín Björg

Þór Þ. vann þrjátíu stiga sigur á Íslandsmeisturum KR, 77-107, í DHL-höllinni í 6. umferð Domino‘s deildar karla í kvöld. 

Þórsarar hafa nú unnið þrjá leiki í röð, gegn Stjörnumönnum, ÍR-ingum og KR-ingum. Sigararnir á ÍR og KR voru með samtals 77 stiga mun! Þór er með skemmtilegt og dúndurgott lið sem þarf að taka alvarlega í vetur.

Þórsarar eru með besta sóknarlið deildarinnar og sýndu allar sínar bestu hliðar á þeim enda vallarins í kvöld. Þá var vörnin einnig til mikillar fyrirmyndar. Þór er í 4. sæti deildarinnar með átta stig.

Eftir þrjá sigra í röð var KR-ingum skellt harkalega niður á jörðina í kvöld. Þeir eru í 6. sæti deildarinnar með sex stig, hafa unnið þrjá leiki og tapað þremur.

Þórsarar gáfu tóninn strax í byrjun, léku frábærlega í vörn og sókn og leiddu með 26 stigum í hálfleik, 31-57.

Gestirnir höfðu mikla yfirburði inni í teig, skoruðu 24 stig þar gegn sextán stigum heimamanna og voru 30-14 yfir í frákastabaráttunni.

Þá hittu Þórsarar einstaklega vel fyrir utan þriggja stiga línuna (47 prósent) á meðan KR-ingar voru ískaldir þaðan (ellefu prósent).

Þór var ellefu stigum yfir eftir 1. leikhluta, 16-27, og gaf enn meira í í 2. leikhluta sem þeir unnu, 15-30. Larry Thomas fór þá mikinn og skoraði fjórtán stig.

Flestir héldu eflaust að KR-ingar myndu byrja seinni hálfleikinn af krafti og með áhlaupi. Hið þveröfuga gerðist. Þórsarar skoruðu þrettán af fyrstu fimmtán stigum seinni hálfleiks og náðu mest 42 stiga forskoti, 36-78.

Þórsarar voru einfaldlega með öll völd á vellinum og áhlaupið frá KR-ingum kom aldrei. Heimamenn hittu reyndar betur en í fyrri hálfleik en vörnin var jafnvel enn verri en þá og bilið breikkaði því bara.

Staðan eftir 3. leikhluta var 53-91, Þór í vil og 4. leikhlutinn var bara formsatriði sem þurfti að klára. Þar fengu minni spámenn að spreyta sig enda úrslitin löngu ráðin.

KR-ingar náðu aðeins að laga stöðuna með því að vinna 4. leikhlutann með átta stiga mun, 24-16. Á endanum munaði því þrjátíu stigum á liðunum, 77-107.

Af hverju vann Þór?

Þórsarar spiluðu svo til gallalausan leik og léku KR-inga grátt. Þeir hittu vel, sóttu ákveðið á körfuna og spiluðu auk þess hörku varnarleik.

KR-ingar eru lágvaxnir, með litla ógn inni í teig og þegar þeir hitta ekki fyrir utan er ansi mikið farið úr leik þeirra. Þá hjálpar ekki þegar vörnin er jafn slök og í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Thomas skoraði 29 stig og setti niður níu þriggja stiga skot. Callum Lawson skoraði sautján stig og tók fjórtán fráköst.

Hinn nítján ára Styrmir Snær Þrastarson heldur svo áfram að spila eins og meistari og skilaði þrettán stigum og sex fráköstum auk þess að spila frábæra vörn á Ty Sabin, langstigahæsta mann deildarinnar, sem skoraði aðeins sex stig í kvöld. Halldór Garðar Hermannsson lagði einnig þrettán stig í púkkið af bekknum.

Hvað gekk illa?

Allt hjá KR. Meistararnir hittu illa, spiluðu afleita vörn og áttu engin svör við stórleik Þórsara. KR-ingar eiga undir högg að sækja inni í teig og nýi maðurinn, Brandon Nazione, hjálpaði lítið til í þeim efnum í kvöld enda svo gott sem nýkominn til liðsins. Þá var Sabin óþekkjanlegur í kvöld, skoraði aðeins sex stig og var stigalaus í seinni hálfleik.

KR tapaði frákastabaráttunni, 60-34, og var aðeins með 35 prósent skotnýtingu í leiknum.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leik á sunnudaginn. KR-ingar fara á Ásvelli og mæta þar Haukum á meðan Þórsarar fá Stólana í heimsókn og geta þá haldið sigurgöngu sinni áfram.

Darri Freyr: Þórsarar gerðu allt betur en við

Darri Freyr Atlason var skiljanlega ekki sáttur eftir þrjátíu stiga tap fyrir Þór.vísir/vilhelm

„Ég veit ekki hvað maður á að segja eftir svona. Við brotnuðum snemma þegar þetta varð erfitt og ég þarf að skoða hverju var um að kenna,“ sagði Darri Freyr Atlason, þjálfari KR, eftir tapið fyrir Þór í kvöld.

KR var 26 stigum undir í hálfleik en náði aldrei neinu áhlaupi í seinni hálfleik og munurinn milli liðanna jókst í 3. leikhluta.

„Við pökkuðum líka saman snemma þegar þetta var orðið helvíti erfitt. Þá vorum við með næstu leiki til hliðsjónar. Þórsarar voru bara betri en við í öllu. Þetta eru kannski áþekk lið en þeir gerðu allt betur en við báðum megin á vellinum,“ sagði Darri.

„Í fyrri hálfleik töluðum við um hvað okkur gekk illa að halda þeim fyrir framan okkur. Við viljum þrengja völlinn þannig að boltinn ferðist meira á þriggja stiga línunni staðinn fyrir í hjartanu á vörninni.“

Darri segir að hann hafi gert mistök með því að vera með Brandon Nazione í byrjunarliðinu.

„Ég gerði mistök með því að byrja með hann eftir eina æfingu. Maður vonaðist eftir einhverju og að sjá hvað myndi gerast. Honum var enginn greiði gerður með þessu og það var mér að kenna. Sömuleiðis held ég að við höfum allir gert aðeins of mikið af mistökum og því fór sem fór,“ sagði Darri að endingu.

Lárus: Byrjaði með mikilli orku í vörninni

Strákarnir hans Lárusar Jónssonar hafa unnið þrjá leiki í röð.vísir/bára

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þ., var að vonum kampakátur með frammistöðuna og sigurinn á KR í kvöld.

„Við spiluðum mjög vel og sérstaklega í vörninni. Við héldum þeirra helstu hestum niðri og Styrmir spilaði eins góða vörn á Ty Sabin og hægt er,“ sagði Lárus eftir leik. Umræddur Sabin, sem er stigahæsti leikmaður Domino‘s deildarinnar, skoraði aðeins sex stig í kvöld.

„Síðan hittum við vel en mér fannst þetta byrja með mikilli orku í vörninni. Allir fórnuðu sér fyrir hvern annan og vörnin skóp þennan sigur.“

Gott jafnvægi var í sóknarleik Þórsara sem leituðu inni í teig milli þess sem þeir bjuggu til góð skot fyrir skytturnar sínar.

„Við vissum að við yrðum með töluverða yfirburði í teignum og tókum frákastabaráttuna tiltölulega auðveldlega. Við ætluðum að passa okkur á að vera ekki of lengi með boltann inni í teig og vera fljótir að koma honum aftur út og sækja á körfuna,“ sagði Lárus.

Þórsarar gengu endanlega frá leiknum með frábærri byrjun á seinni hálfleik þar sem þeir náðu mest 42 stiga forskoti.

„Við töluðum um að KR gætu komið mjög sterkir inn í seinni hálfleik. Við ætluðum ekkert að slaka heldur halda áfram að spila okkar leik,“ sagði Lárus.

Þór hefur nú unnið þrjá leiki í röð gegn sterkum liðum, Stjörnunni, ÍR og KR. Þrátt fyrir það er Lárus með báða fætur á jörðinni.

„Við megum samt ekkert ofmetnast. Maður verður að taka með í reikninginn að það eru tveir dagar síðan KR spilaði á Akureyri. Þeir eru líka ekki komnir með alla sína atvinnumenn. Kannski voru lappirnar hjá þeim töluvert þyngri en hjá okkur,“ sagði Lárus að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira