Ríkisfjölmiðill í Norður-Kóreu birti í gær myndir af Ri Sol-ju þar sem hún situr við hlið eiginmanns síns á tónleikum sem haldnir voru í Mansudae-listasalnum í Pyonyang í tilefni af fæðingardegi Kim Jong-il, fyrrverandi leiðtoga landsins og föður Kim Jong-un. Eru þau sögð hafa komið inn í salinn undir dynjandi lófataki og fögnuði annarra gesta.
Ri hefur oft birst með eiginmanni sínum á stærri viðburðum, síðast í janúar á síðasta ári og hafði því ekkert hafði til hennar spurst opinberlega í rúmt ár.
Fjarverandi vegna Covid-19
Fjarvera Ri Sol-ju hafði vakið upp spurningar um hvort hún væri að glíma við vanheilsu eða hvort hún væri barnshafandi. Leyniþjónusta Suður-Kóreu hafði áður greint suður-kóreskum þingmönnum frá því að Ri hafi forðast að koma fram vegna áhyggna af Covid-19 og að hún vildi verja sem mestum tíma með börnum þeirra hjóna.
Samkvæmt opinberum gögnum eru engin skráð kórónuveirutilfelli í Norður-Kóreu þó að sérfræðingar telji fullvíst að það sé ekki rétt.
Þó að ýmislegt sé á huldu varðandi Ri Sol-ju þá er hún talin vera 31 árs gömul, en hún hafði áður starfað sem söngkona í Unhasu-hljómsveitinni, sérstakrar sveitar þar sem meðlimir eru handvaldir af fulltrúum ríkisvaldsins.
Þau Ri og Kim gengu í hjónaband árið 2009 og er talið að þau eigi saman þrjú börn.