Fiskistofa hóf formlegt veiðieftirlit með drónum í byrjun janúar. Eftirlitsmenn Fiskistofu hafa hingað til fylgst með veiðum um borð en drónarnir nýtast nú þar sem erfitt er að komast að samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni.
Á vefsíðu Fiskistofu kemur fram að Ríkisendurskoðun hafi árið 2019 gagnrýnt eftirlit stofnunarinnar og kveðið á um að það þyrfti að vera skilvirkara til að hafa að hafa tilætluð áhrif.
Elín Björg Ragnarsdóttir sviðsstjóri veiðieftirlits hjá Fiskistofu segir að með notkun drónanna sé eftirlitið þegar orðið skilvirkara.

„Sem betur fer eru alls ekki allir að brjóta af sér en því miður of margir. Það sem af er ári eru ellefu brot í rannsókn og ég á von á einu til tveimur brotum til viðbótar bara frá gærdeginum. Við höfum séð að þar sem kannski fimm til sex bátar eru að veiðum hefur að meðaltalið einn orðið uppvís að brottkasti eftir að við byrjuðum markvisst að nota drónanna,“ segir Elín.
Hún segir að þarna sé ekki bara verið að kasta tindabykkju eða verðlausum fiski.
Ýsa og þorskur í sjóinn
„Við erum að sjá brottkast á ýsu, þorski, stórum þorski þannig að brotin eru miklu meiri en við hefðum viljað sjá. Við höfum séð menn henda talsverðu magni,“ segir Elín.
Hún segir að núna sé drónaeftirlitið fyrst og fremst bundið við smærri báta en stefnt sé á að nota einnig dróna við eftirlit með veiðiskipum.
„Það sem við erum að sjá núna eru mest línubátar og netabátar,“ segir hún.
Hún segir málin misalvarleg, flestir fái leiðbeiningar frá Fiskistofu um hvernig meðhöndla á afla sem ekki sé nýttur en einhverjir geti átt von á áminningu eða jafnvel sviptingu á veiðileyfi.
Drónarnir sanna gildi sitt
„Ég myndi trúa að það væru svona 4 brot sem séu mjög alvarleg,“ segir hún.
Hún segir að eftirlit með drónum hafi þegar sannað gildi sitt og útgerðirnar séu vel upplýstar um að þeir séu notaðir. Drónarnir fari ekki á upptöku fyrr en bátar eða skip verða uppvís að brotum.
„Menn eru í raun búnir að brjóta af sér áður en við byrjum á að taka myndir. Við getum sagt að það sem komið er í brottkast það sem af er ári sé næstum jafn mikið og það hefur verið árlega undanfarin ár. Það er gríðarlegum verðmætum hent í sjóinn,“ segir Elín.