Juventus vann leikinn gegn Porto í gær, 3-2, en féll úr leik á útivallarmörkum. Sergio Oliveira skoraði markið sem tryggði Porto farseðilinn í átta liða úrslit með skoti beint úr aukaspyrnu af löngu færi þegar fimm mínútur voru eftir af framlengingunni.
Ronaldo var einn þriggja leikmanna Juventus í varnarveggnum. Portúgalinn sneri sér hins vegar frá boltanum og setti fæturna í sundur sem gaf Oliveira tækifæri til að setja boltann undir vegginn og í netið.
Hann jafnaði þá í 2-2 og Juventus þurfti því að skora tvö mörk til að komast áfram. Adrian Rabiot kom ítölsku meisturum yfir skömmu seinna en lengra komust þeir ekki. Juventus er því úr leik í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar annað árið í röð. Og síðan Ronaldo kom til Juventus hefur liðið ekki komist lengra en í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.
„Þetta voru ófyrirgefanleg mistök,“ sagði Capello á Sky Sports Italia í gær er rætt var um mark Oliveiras.
„Þegar ég var að þjálfa valdirðu hvaða leikmenn fóru í vegginn og þeir gátu ekki verið hræddir við boltann. Þeir voru smeykir við boltann og hoppuðu frá honum og sneru baki í hann. Það er ófyrirgefanlegt.“
Eftir leikinn gagnrýndi Andrea Pirlo, knattspyrnustjóri Juventus, líka leikmennina sem stóðu í varnarveggnum.
„Þetta hefur aldrei áður gerst, að þeir snúi sér við. Kannski áttuðu þeir sig ekki á hættunni þar sem aukaspyrnan var svo langt frá. Þetta voru sjaldséð mistök. Leikmönnunum fannst þetta ekki vera hættuleg staða og fengu á sig mark,“ sagði Pirlo.

Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.