Fótbolti

Ron­aldo fáan­legur fyrir 25 milljónir punda

Anton Ingi Leifsson skrifar
Svekktur Ronaldo í Tórínó á þriðjudagskvöldið.
Svekktur Ronaldo í Tórínó á þriðjudagskvöldið. AP Photo/Luca Bruno)

Juventus eru sagðir tilbúnir að láta Cristiano Ronaldo fara frá félaginu fyrir litlar 25 milljónir punda, þremur árum eftir að hann kom til félagsins frá Real Madrid fyrir hundrað milljónir evra.

Ronaldo kom til Juventus árið 2018 en hann átti að hjálpa Juventus að vinna Meistaradeildina. Það hefur ekki gengið eftir og nú síðast duttu þeir út fyrir Porto í sextán liða úrslitunum á dögunum.

Það gæti verið síðasti Evrópuleikur Ronaldo með Juventus því Gamla konan er sögð reiðubúin að losa sig við þann portúgalska. Verðmiðinn er talinn 25 milljónir punda, samkvæmt Football Italia.

Ronaldo er orðinn 36 ára gamall og er Juventus einna helst talið horfa í launapakka hans. Hann þénar um 28 milljónir punda á ári og er eðlilega lang, lang launahæsti leikmaður Juventus.

Núverandi samningur Ronaldo við Juventus rennur út í júní á næsta ári en félagið er ekki talið hafa áhuga á að framlengja þann samning.

Sögusagnir hafa heyrst þess efnis að Jorge Mendes, umboðsmaður Ronaldo, hafi fundað með Real Madrid um mögulega endurkomu til Madrídar en ekkert hefur verið staðfest í þeim efnum.


Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×