Innlent

Ekki líklegt að gasmengun berist til Grindavíkur

Samúel Karl Ólason skrifar
Fannar segir að miðað við spár muni gasmengun ekki berast til Grindavíkur á næstu dögum.
Fannar segir að miðað við spár muni gasmengun ekki berast til Grindavíkur á næstu dögum. Vísir/Einar/Vilhelm

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir að eldgosið í Geldingadal hafi létt á spennu á svæðinu og þess sé vænst að jarðskjálftum muni fækka. Enn sé þó mögulegt að þeim gæti fjölgað, þó það sé ólíklegra.

Hann segir erfitt að spá um ástandið.

„Það er kærkomið fyrir okkur hérna að geta sofið betur á nóttinni heldur en síðustu vikurnar,“ sagði Fannar.

Varðandi gasmengun sagði Fannar að gasið bærist nú til austurs og miðað við veðurspár færi það norður næstu daga. Grindavík væri því í góðum málum hvað gasmengun varði næstu sólarhringana.

Bogi Adolfsson, formaður Björgunarsveitarinnar Þorbjörns, segir að björgunarsveitarmenn hafi þurft að vísa nokkrum illa búnum göngumönnum frá eldgosinu. Fólk hafi verið illa klætt og ekki gert sér grein mögulegri gasmengun.

Gas geti myndast í lægðum og dölum og fólk þurfi að vera með gasmæla.

„Þú verður ekkert var við þetta nema vera með mæla,“ segir Bogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×