Lewandowski er talinn einn besti framherji heims um þessar mundir og var til að mynda valinn leikmaður ársins 2020 af Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA. Hinn 32 ára gamli Lewandowski hefur haldið sínu striki á þessu tímabili og skorað hvert markið á fætur öðru.
Hefur hann skorað 35 mörk í 25 leikjum í þýsku úrvaldsdeildinni ásamt því að leggja upp sex til viðbótar. Þá hefur hann skorað fimm mörk í sex leikjum í Meistaradeild Evrópu og tvö í tveimur leikjum á HM félagsliða.
Bayern greindi frá því á samfélagsmiðlum sínum í dag að Lewandowski yrði frá næstu vikurnar og þar með er ljóst að hann missir af stórleik Englands og Póllands á Wembley í Lundúnum á morgun.
Einnig mun hann missa af næstu leikjum Bæjara vegna meiðslanna og þar á meðal einvígisins gegn PSG í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Um er að ræða liðin sem mættust í úrslitum á síðustu leiktíð en þar höfðu Bayern betur 1-0 þökk sé marki Kingsley Coman.
Sigurvegar einvígisins mun svo mæta Manchester City eða Borussia Dortmund í undanúrslitum.
Leikur Englands og Póllands er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 2 annað kvöld 18.35. Sama á við um rimmu Bayern og PSG þegar þar að kemur.
Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.