Í tilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að vakt hennar hafi orðið sprungunnar vör um eða upp úr klukkan þrjú í nótt. Við sjónrænt mat af vefmyndavélum virðist megin hrauntaumurinn sameinast hraunflæði sem rennur í Geldingadali úr norðri.
Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir Vísi að fyrstu vísbendingar um nýju sprunguna hafi sést á vefmyndavél mbl.is á milli klukkan þrjú og fjögur í nótt. Erfitt var að staðfesta í fyrstu hvort að ný sprunga hefði opnast eða breytingar hafi orðið á hraunflæði.
Þegar líða tók á morguninn fór þó ekki á milli mála að ný sprunga hefði opnast. Sprungan opnaðist undir nýju hrauni frá sprungunum sem voru fyrir.
Sprungan opnaðist á svæði þar sem varað hefur verið við að nýjar gossprungur gætu opnast fyrirvaralaust. Í tilkynningu frá Veðurstofunni í gærkvöldi var sérstaklega varað við þessu hættusvæði.
Ekki liggur enn fyrir hvort að virkni eldgossins hafi breyst við það að ný sprunga opnaðist. Til þess að skera úr um það þarf að meta hraunflæðið úr lofti. Einar segir að af vefmyndavélum að dæma virðist áfram virkni í öllum gígum sem voru fyrir.
Fréttin hefur verið uppfærð.