Ljónin unnu tíu marka sigur á Medvedi í síðari leiknum í kvöld, 37-27, og fóru samanlagt áfram 69-60. Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað fyrir þýska liðið.
Magdeburg vann átta marka sigur á öðru Íslendingaliði, Kristianstad, og samanlagt leikina tvo 73-59. Ómar Ingi Magnússon fór á kostum og var með nú mörk en Ólafur Guðmundsson gerði fjögur fyrir Kristianstad og Teitur Örn Einarsson eitt.
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar í GOG eru hins vegar úr leik eftir fimm marka tap í síðari leiknum gegn Wisla Plock. Samnlagt töpuðu GOG því einvíginu með tveimur mörkum.
Dagný Brynjarsdóttir spilaði allan leikinn í markalausu jafntefli West Ham gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni. West Ham er í níunda sætinu með þrettán stig.
Böðvar Böðvarsson lagði upp eitt marka Helsingborgar í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Böðvar spilaði allan leikinn í 4-1 sigri en hann lagði upp markið fyrir fyrrum FH-inginn, Brand Henriksson. Helsingborg með fjögur stig eftir tvær umferðir.
Alfreð Finnbogason spilaði í hálftíma er Augsburg tapaði 2-0 fyrir Eintracht Frankfurt á heimavelli í þýska boltanum. Alfreð var að snúa aftur eftir meiðsli.
Í B-deildinni í Þýskalandi spilaði Victor Pálsson allan leikinn í 3-1 sigri Darmstadt á Wuerzburger Kickers en Darmstadt er í tíunda sætinu.