Sveindís meiddist í leik gegn Växjö 30. apríl, í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta, og var borin af velli. Þessi 19 ára landsliðskona reyndist vera með beinmar og ætti að geta snúið aftur til keppni um miðjan júní, eftir að hafa slegið í gegn á fyrstu vikum sínum í Svíþjóð og verið valin besti leikmaður deildarinnar í apríl.
Í viðtali við Aftonbladet segist Sveindís á góðum batavegi og að það hafi komið sjúkraþjálfara hennar á óvart hve endurhæfingin gengi vel.
„Hefur verið ótrúlega góð fyrir okkur“
Elísabet var með liðsfélaga Sveindísar á æfingu síðastliðinn mánudag þegar í ljós kom hvers eðlis meiðsli Sveindísar voru:
„Það fögnuðu allir eins og við hefðum unnið HM eða eitthvað. Skiljanlega – hún hefur verið ótrúlega góð fyrir okkur í fyrstu þremur leikjunum og það er gott að vita til þess að hún komi aftur fyrir hléið,“ sagði Elísabet við Aftonbladet, en hlé er í sænsku úrvalsdeildinni frá 6. júlí til 21. ágúst vegna Ólympíuleikanna.
Elísabet segist sjálf hafa verið 95 prósent viss um að Sveindís hefði slitið krossband:
„Það er ekki eins og ég hafi verið að búast við góðum fréttum. En það var svolítið fyndið að íslenski landsliðsþjálfarinn hafði sent mér skilaboð: „svo að krossbandið er ekki slitið?“ Ég sá þessi skilaboð á miðri æfingu og hgusaði bara með mér; hvernig veit hann það? Þá hafði pabbi Sveindísar skrifað þetta á Facebook.
Tveimur mínútum eftir að hún fékk að vita niðurstöðuna þá hringdi hún í pabba sinn og hann sagði frá þessu á Facebook, svo að allir á Íslandi vissu þetta á undan okkur,“ sagði Elísabet.