Fótbolti

19 dagar í EM: Ísland með fleiri mörk að meðaltali á EM en Þýskaland, Frakkland, Spánn og England

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Strákarnir okkar fagna marki Ragnars Sigurðssonar á móti Englandi í sextán liða úrslitum EM 2016.
Strákarnir okkar fagna marki Ragnars Sigurðssonar á móti Englandi í sextán liða úrslitum EM 2016. Getty/Marc Atkins

Vísir telur niður í Evrópumótið í knattspyrnu sem hefst 11. júní næstkomandi. Markaskor íslenska landsliðsins á sínu eina stórmóti kemur Íslandi ofar á blað í EM-sögunni en margar þekktar knattspyrnuþjóðir.

Íslenska karlandsliðið í knattspyrnu skipar 20. til 21. sæti á listanum yfir markahæstu þjóðirnar í meira en sextíu ára sögu Evrópumótsins og það þrátt fyrir að hafa komist bara einu sinni í úrslitakeppnina.

Strákarnir í íslenska landsliðinu skoruðu átta mörk í fimm leikjum sínum á EM í Frakklandi sumarið 2016 og skoruðu tvö mörk í síðustu þremur leikjum sínum á móti Austurríki, Englandi og Frakklandi. Liðið skoraði eitt mark í fyrstu tveimur á móti Portúgal og Ungverjalandi og skoraði því mark í öllum leikjum sínum.

Íslenska liðið var því með 1,6 mörk að meðlatali í leik og það eru bara tvær þjóðir sem hafa skorað fleiri mörk að meðaltali í úrslitakeppni EM. Wales (1 mót) er í fyrsta sæti með 1,67 mörk í leik og Hollendingar (9 mót) eru í öðru sæti með 1,63 mörk í leik.

Næstu þjóðir á eftir Íslandi eru Frakkland (1,59 mörk í leik) og Serbía (1,57) en Þjóðverjar eru svo í sjötta sætinu með 1,47 mörk í leik.

Það er sérstakt að skoða töfluna yfir árangur þjóða í úrslitakeppni EM enda ekkert sjálfgefið að þjóð skori átta mark á sínu fyrsta móti. Norðmenn skoruðu sem dæmi aðeins eitt mark á eina Evrópumóti sínu sumarið 2000.

Ísland deilir nú tuttugasta sæti heildarmarkalistans með Sviss en Svisslendingar hafa samt farið á þrjú fleiri Evrópumóti og spilað átta fleiri leiki.

Meðal þjóða fyrir neðan Ísland í fjölda skoraða marka í úrslitakeppni EM eru Pólland (7 mörk) og Írland (6 mörk) sem hafa farið bæði á þrjú Evrópumót og síðan Skotland (4 mörk) og Búlgaría (4 mörk) sem hafa farið á tvö Evrópumót.

Markahæsta þjóð í úrslitakeppni EM er Þýskaland með 72 mörk en Frakkar eru tíu mörkum á eftir (62 mörk) og Hollendingar eru síðan í þriðja sætinu með 57 mörk, tveimur mörkum á undan Spánverjum.

  • Flest mörk þjóða í sögu úrslitakeppni EM 1960-2016:
  • 1. Þýskaland 72
  • 2. Frakkland 62
  • 3. Holland 57
  • 4. Spánn 55
  • 5. Portúgal 49
  • 6. Tékkland 42
  • 7. England 40
  • 8. Ítalía 39
  • 9. Rússland 38
  • 10. Danmörk 30
  • 20. Ísland 8
  • --
  • Flest mörk í leik í sögu úrslitakeppni EM 1960-2016:
  • 1. Wales 1,67
  • 2. Holland 1,63
  • 3. Ísland 1,60
  • 4. Frakkland 1,59
  • 5. Serbía 1,57
  • 6. Þýskaland 1,47
  • 7. Portúgal 14,0
  • 8. Spánn 1,38
  • 8. Ungverjaland 1,38
  • 10. Slóvenía 1,33

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×