Áslaug Arna dómsmálaráðherra segir Ísland hafa tekið stórt skref þegar ákveðið var að hleypa bólusettum ferðamönnum til landsins. Hingað til hafa þó allir sem komið hafa til landsins verið skimaðir fyrir Covid-19. Þeim sýnatökum verður hætt og öllum bólusettum hleypt inn í landið með hefðbundnum hætti frá og með 1. júlí.
Bólusettum verður gert að framvísa gildum vottorðum um bólusetningu með bóluefnum sem Lyfjastofnun Evrópu og/eða WHO hafa viðurkennt. Bólusetning telst gild tveimur vikum eftir að hlutaðeigandi fékk síðari skammt bóluefnis, en hafi fólk verið bólusett með bóluefni Janssen þarf ein vika að hafa liðið frá bólusetningu.
Börn fædd 2005 eða síðar þurfa ekki að undirgangast sýnatöku við komu til landsins frá og með 1. júlí.
Þau sem framvísa gildum vottorðum um bólusetningu eða fyrri sýkingu af völdum Covid-19 og börn fædd 2005 og síðar þurfa ekki að framvísa neikvæðum PCR-vottorðum við komuna til landsins frá og með 1. júlí.
Í tilvikum þeirra sem ekki geta framvísað gildum vottorðum um bólusetningu gegn Covid-19 eða fyrri Covid-19 sýkingu þarf áfram að framvísa neikvæðu PCR-vottorði við byrðingu og á landamærum, undirgangast skimun með PCR-prófi við komuna til landsins og dvelja í sóttkví í 5 daga og undirgangast seinni skimun að henni lokinni.