Innlent

Sviptur læknaleyfi eftir að upp komst um ónauðsynlegar aðgerðir

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Læknirinn á Handlæknastöðinni í Glæsibæ og hafði gert í mörg ár.
Læknirinn á Handlæknastöðinni í Glæsibæ og hafði gert í mörg ár. VÍSIR/ARNAR

Háls, nef- og eyrnalæknir hefur verið sviptur læknaleyfi vegna ónauðsynlegra skurðaðgerða, meðal annars á börnum. Embætti landlæknis réðst í umfangsmikla rannsókn vegna málsins.

Upp komst um málið á síðasta ári eftir að embætti landlæknis fékk ábendingu um vafasama starfshætti háls, nef- og eyrnalæknis sem starfaði á Handlæknastöðinni í Glæsibæ. Grunur var um að læknirinn væri ekki að beita ásættanlegri læknisfræði í aðgerðum sínum og að hann væri að framkvæma ónauðsynlegar aðgerðir, bæði á börnum og fullorðnu fólki. Þetta herma áreiðanlegar heimildir fréttastofu.

Tugir aðgerða til rannsóknar

Þá hófst umfangsmikil rannsókn embættis landlæknis þar sem aðgerðir læknisins á nokkurra mánaða tímabili voru skoðaðar. Tugir aðgerða voru til rannsóknar og var niðurstaðan sú að margar þeirra hafi verið ónauðsynlegar eða að óeðlilegum aðferðum hafi verið beitt við framkvæmd þeirra.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var læknirinn sviptur læknaleyfi sínu í kjölfarið. Hann kærði þá ákvörðun til heilbrigðisráðuneytisins. 

Handlæknastöðin er einkarekin og eru þar árlega framkvæmdar um 7.600 skurðaðgerðir, flestar á börnum. 

Handlæknastöðin er einkarekin og eru þar árlega framkvæmdar um 7.600 skurðaðgerðir, flestar á börnum.VÍSIR/ARNAR

Ásta Valdimarsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins, segir að ráðuneytið hafi unnið úrskurð í máli læknis vegna sviptingar starfsleyfis og sá úrskurður verði birtur á næstu dögum. Þangað til tjái ráðuneytið sig ekki.

Tjá sig ekki um mál einstakra lækna

Í svari embættis landlæknis segir að embættið muni ekki svara spurningum um málið fyrr en úrskurður heilbrigðisráðuneytisins hefur verið birtur.

Sem fyrr segir starfaði læknirinn á Handlæknastöðinni í Glæsibæ og hafði gert í mörg ár. Úlfar Þórðarson, framkvæmdastjóri, neitaði fréttastofu um viðtal vegna málsins og segist ekki geta tjáð sig um mál einstaka lækna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×