Solskjær ræddi við blaðamenn um stöðuna á Rashford eftir 2-1 sigur Man United á Derby County í vináttuleik um helgina. Þau sem fylgdust með Manchester United á síðustu leiktíð – sem og enska landsliðinu á EM – vita að Rashford hefur ekki gengið heill til skógar í dágóðan tíma.
Tímabilið 2019/2020 var hann einnig að glíma við erfið meiðsli í baki en þar sem enska úrvalsdeildin var sett á ís vegna kórónufaraldursins náði hann að jafna sig og klára tímabilið með Man United. Á síðustu leiktíð var hann að glíma við meiðsli á öxl sem og ökkla.
„Við þurfum að taka þá ákvörðun sem er best fyrir hann. Við höfum ekki enn ákveðið hvað við eigum að gera varðandi meiðslin,“ sagði Solskjær um stöðuna á Rashford.
Ljóst er að Rashford þarf að fara í aðgerð ef hann stefnir á að ná fullum bata, hvíld ein og sér dugir ekki til. Leikmaðurinn kemst hins vegar ekki í aðgerð strax og yrði frá fram í október ef hann færi undir hnífinn.
Nú virðist sem Solskjær sé ekki alveg viss hvort það væri best fyrir Rashford – og Manchester United – að fara í aðgerð í sumar.
Solskjær ræddi einnig framtíð Jesse Lingard að leik loknum. Leikmaðurinn var lánaður til West Ham United síðari hluta síðustu leiktíðar og stóð sig með prýði.
„Jesse er leikmaður Man Utd. Hann vill berjast fyrir sæti í liðinu. Hann hefur komið sterkur til baka með mikla orku og mikið sjálfstraust. Hann er í áætlunum mínum,“ sagði Solskjær.