Erlent

Amanda Knox segir Matt Damon vilja græða peninga á harmi þrunginni ævisögu hennar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Amanda Knox hefur sakað Matt Damon og Tom McCarthy um að vilja græða peninga á lífi hennar.
Amanda Knox hefur sakað Matt Damon og Tom McCarthy um að vilja græða peninga á lífi hennar. Getty/ Emanuele Cremaschi

Hin bandaríska Amanda Knox heldur því fram að kvikmyndin Stillwater sé byggð á ævisögu hennar og að saga hennar hafi verið notuð, án hennar samþykkis, til að græða peninga.

Knox var árið 2007 ákærð, ásamt fyrrverandi kærasta sínum Raffaele Sollecito, fyrir að hafa myrt Meredith Kercher, sambýling Knox, í bænum Perugia á Ítalíu. Knox var þar stúdent og hafði búið í bænum í nokkrar vikur áður en Kercher var myrt. Knox og Sollecito voru sakfelld fyrir morðið en síðar sýknuð af morðinu.

Kvikmyndin Stillwater er nýkomin í bíó vestanhafs og fer óskarsverðlaunahafinn Matt Damon með aðalhlutverk í myndinni. Leikstjóri myndarinnar, Tom McCarthy, hefur sagt að myndin sé lauslega byggð á sögu Knox.

Myndin Stillwater fjallar um bandarískan föður sem ferðast til Frakklands þar sem dóttir hans er í fangelsi. Dóttirin er sökuð um að hafa myrt sambýliskonu sína og má sjá úr stiklu myndarinnar að sagan líkist mjög sögu Knox.

Eyddi fjórum árum í ítölsku fangelsi

Mál Knox vakti mikla athygli á sínum tíma og vilja margir meina að lögreglan í Perugia hafi ákveðið strax eftir morðið að Knox og Sollecito bæru ábyrgð á morðinu. Knox var aðeins tvítug þegar Kercher var myrt en Knox var sú sem fann líkið. Knox og Sollecito voru bæði sakfelld fyrir morðið og voru dæmd í 25 og 26 ára fangelsi en sátu aðeins inni í fjögur ár, þar til þau voru sýknuð.

Ítalski þjófurinn Rudy Guede var síðar sakfelldur fyrir morðið eftir að blóðug fingraför hans fundust á hlutum sem voru í herbergi Kercher þegar morðið átti sér stað. Hann var dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir morðið en í desember síðastliðnum fékk hann að losna á reynslulausn og mun aðeins þurfa að sinna samfélagsþjónustu til að uppfylla dóminn.

„Tilheyrir nafnið mitt mér?“

„Tilheyrir nafnið mitt mér? Andlitið mitt? Hvað með líf mitt? Sögu mína? Hvers vegna tengist nafnið mitt atburðarrás sem ég tengdist ekkert? Þessar spurningar koma aftur upp hjá mér þegar aðrir reyna að græða á nafninu mínu, andlitinu mínu og sögu minni án míns samþykkis. Það nýjasta er kvikmyndin #Stillwater,“ tísti Knox í gær.

Hún segist ekki vilja neitt heitar en að fólk tali um atburðina í Perugia sem „Rudy Guede sem myrti Meredith Kercher.“ Hún hafi aldrei verið neitt annað en aukapersóna í sögunni, saklaus sambýlingur.

Þá hefur Knox boðið bæði McCarthy og Damon að ræða við sig um atburði kvikmyndarinnar í hlaðvarpinu hennar Labyrinths.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×