Erlent

Eiturblöndur valda tvöfalt meiri dauða meðal býflugna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Býflugur er sérlega mikilvægar vistkerfinu.
Býflugur er sérlega mikilvægar vistkerfinu. AFP

Vísindamenn hafa komist að því að skordýraeiturblöndur geta valdið tvöfalt meiri dauða meðal býflugna en áður var talið. Þeir leggja til að haldið sé áfram að hafa eftirlit með notkun slíkra kokteila eftir að notkun þeirra hefur verið heimiluð.

Um er að ræða athugun þar sem niðurstöður 90 rannsókna voru skoðaðar en allar vörðuðu þær áhrif umhverfisþátta á býflugur. Tilgangurinn var að kanna samanlögð áhrif umræddra þátta á afkomu býflugnanna.

Að sögn Harry Siviter, sem starfar við University of Texas í Austin og fór fyrir rannsókninni, er það nú venjan fremur en undantekningin að býflugur komist í snertingu við margs konar skordýraeitur. 

„Ef þú ert með býflugnabú sem verður fyrir áhrifum frá einu skordýraeitri sem drepur um 10 prósent býflugnanna og öðru sem drepur önnur 10 prósent þá myndi maður gera ráð fyrir samlegðaráhrifum og að 20 prósent býflugnanna dræpust,“ segir hann.

Raunin sé hins vegar sú að vegna samspils efnanna þá drepist 30 til 40 prósent.

Að sögn Siviter ætti því ekki bara að gera einstaka skordýraeitur leyfisskyld, heldur ætti einnig að krefjast þess að tilbúnar blöndur, þar sem tveimur eða fleiri eiturtegundum er blandað saman, fari í gegnum leyfisferli.

Þá ætti að hafa eftirlit með notkun þeirra eftir að leyfi hefur verið veitt, til að kanna nánar áhrif þeirra.

BBC greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×