Fótbolti

Katar hoppaði upp um sextán sæti á FIFA-listanum og er komið upp fyrir Ísland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska landsliðið fyrir leik á móti Póllandi í byrjun júní.
Íslenska landsliðið fyrir leik á móti Póllandi í byrjun júní. Getty/Mateusz Slodkowski

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu lækkaði um eitt sæti á nýjasta styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins.

Ísland er nú í 53. sæti á listanum og hefur ekki verið lægra í sjö ár. Íslenska liðið er fjórtán sætum neðar á listanum nú en fyrir aðeins einu ári. Hæst komst íslenska liðið í átjánda sæti árið 2018.

Íslenska liðið var i 52. sæti í maí og 46. sæti í febrúar.

Katar er hástökkvari listans að þessu sinni en landslið Katar fór upp um sextán sæti.

Katar var i 58. sæti á listanum í maí en er nú komið upp í 42. sæti. Katar heldur einmitt heimsmeistarakeppnina á næsta ári.

Belgar eru áfram í fyrsta sæti en Brasilíumenn fóru upp fyrir Frakkland og í 2. sætið.

Englendingar eru áfram í fjórða sætinu og Evrópumeistarar Ítala eru nú í fimmta sætinu eftir að hafa verið sjöundu fyrir EM.

Þjóðverjar eru aðeins í sextánda sæti og hafa ekki verið lægra á listanum síðan árið 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×