Fótbolti

Las á netinu að við þyrftum sex stig svo það er „engin pressa“

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Þór Viðarsson tók við íslenska landsliðinu síðasta vetur.
Arnar Þór Viðarsson tók við íslenska landsliðinu síðasta vetur. vísir/vilhelm

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari í fótbolta, segist ekki vilja horfa á of marga leiki fram í tímann heldur einblína á leikinn við Rúmeníu á Laugardalsvelli næsta fimmtudagskvöld.

Ísland vann Rúmeníu 2-1 í október á síðasta ári, í umspili um sæti á EM, með mörkum frá Gylfa Þór Sigurðssyni.

Nú mætast liðin í undankeppni HM í Katar. Eftir leikinn við Rúmeníu leikur Ísland við Norður-Makedóníu á sunnudag og svo stórlið Þýskalands 8. september.

Ísland fékk þrjú stig úr fyrstu þremur leikjum sínum í keppninni, sem allir voru á útivelli í mars. Liðið tapaði í Þýskalandi og Armeníu en vann Liechtenstein. Hvað vill Arnar fá út úr leikjunum þremur sem nú eru fram undan?

„Ég er búinn að lesa einhvers staðar á netinu undanfarna daga að við þurfum að fá alla vega sex stig. Þannig að það er bara „engin pressa“,“ sagði Arnar kíminn.

Klippa: Arnar um komandi landsleiki

„Við þurfum að taka leik fyrir leik og sá fyrsti er gegn Rúmeníu sem er mikilvægur heimaleikur sem við myndum gjarnan vilja vinna. Við vitum að það er mjög erfiður leikur,“ sagði Arnar.

„Rúmenía er mikil knattspyrnuþjóð og hefur verið í ákveðinni uppbyggingu með sitt lið. Þegar við unnum þá hérna síðast voru margir ungir leikmenn í hópnum þeirra og þeir eru í því ferli að þróa sitt lið, alveg eins og við erum að þróa okkar lið og hugmyndafræði. Það verður erfitt verkefni að klára Rúmeníu fyrst. Þegar það er komið förum við að hugsa um næstu leiki,“ bætti hann við.

Rúmenía vann Norður-Makedóníu 3-2 í fyrsta leik sínum í undankeppninni en tapaði svo 1-0 á heimavelli gegn Þýskalandi og 3-2 gegn Armeníu á útivelli.


Tengdar fréttir

Ekki alltaf sann­gjörn gagn­rýni

„Ég ætla ekki að standa hérna og ljúga að þér, það er búið að vera mikið að gera og þetta er búið að vera erfitt að mörgu leyti,“ sagði Arnar Þór Viðarsson er hann ræddi við Stöð 2 og Vísi eftir að landsliðshópur Íslands fyrir leikina gegn Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi var tilkynntur.

Ísland án margra lykilmanna í komandi verkefni í undankeppni HM

Landsliðsþjálfararnir Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen kynntu í dag landsliðshóp sinn fyrir komandi verkefni í undankeppni heimsmeistaramótsins. Ísland varður án margra lykilmanna. Henry Birgir Gunnarsson var í Laugardalnum og ræddi við Arnar Þór eftir fundinn.

Arnar Þór hefur ekki rætt við Gylfa

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, segist ekki hafa rætt við Gylfa Þór Sigurðsson eftir að hann var handtekinn á Englandi vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða stúlku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×