Fótbolti

Håland hélt hann hefði putta­brotið Van Dijk

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Erling Braut Håland í baráttunni við Virgil van Dijk í leik gærkvöldsins.
Erling Braut Håland í baráttunni við Virgil van Dijk í leik gærkvöldsins. Laurens Lindhout/Getty Images

Norðmaðurinn Erling Braut Håland hélt hann hefði puttabrotið Hollendinginn Virgil van Dijk í leik liðanna sem fram fór í Ósló, höfuðborg Noregs.

Noregur tók á móti Hollandi í undankeppni HM í fótbolta þann 1. september. Bæði lið voru jöfn með sex stig fyrir leik og eftir 1-1 jafntefli í Ósló eru þau enn jöfn með sjö stig. 

Téður Håland kom heimamönnum yfir þegar tuttugu mínútur voru liðnar en Davy Klaassen jafnaði metin fyrir gestina á 37. mínútu leiksins og þar við sat.

„Ég held ég hafi puttabrotið Van Dijk. Hann kom upp að mér og sagði: Fjandinn, ég held þú hafir puttabrotið mig. Hann sagðist samt vera góður, þannig séð. Ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta gerðist,“ sagði norski framherjinn í viðtali við TV2 að leik loknum.

Sjúkraþjálfarar Hollands tjáðu fjölmiðlum skömmu síðar að Van Dijk hefði ekki brotið nein bein. Hann hefði hins vegar farið úr lið á litla fingri á vinstri hendi. Eftir að fingurinn var settur aftur í lið var fingurinn límdur saman við baugfingur vinstri handa og kláraði Van Dijk leikinn þannig.

Enginn skaði skeður og því ætti hinn þrítugi Hollendingur að vera klár í heimaleika Hollands gegn Svartfjallalandi og Tyrklandi á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×