Fótbolti

Einkunnir Íslands: Birkir Már skástur í gjörbreyttu liði

Íþróttadeild Vísis skrifar
Birkir Már Sævarsson með boltann í leiknum gegn Rúmenum í kvöld.
Birkir Már Sævarsson með boltann í leiknum gegn Rúmenum í kvöld. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Mikið breytt lið Íslands frá fyrstu leikjunum í undankeppni HM karla í fótbolta náði ekki að koma í veg fyrir 2-0 tap gegn Rúmeníu á Laugardalsvelli. Birkir Már Sævarsson stóð upp úr í einkunnagjöf Vísis.

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari gaf fjölda leikmanna tækifæri til að sýna sig og sanna í kvöld, í fjarveru margra af lykilmönnum landsliðsins síðustu ár. Í byrjunarliðinu voru menn sem fengu að spila sinn fyrsta mótsleik fyrir A-landsliðið og komust þeir misvel frá sínu.

Arnar gerði þrjár skiptingar í seinni hálfleiknum og ákveðið líf fylgdi innkomu Ísaks Bergmanns Jóhanenssonar og Jóns Dags Þorsteinssonar en þeir náðu þó ekki að koma boltanum í netið frekar en liðsfélagar þeirra.

Heilt yfir náði íslenska liðið ekki að skapa nægilega mikið fram á við og varnarleikurinn var einnig gloppóttur.

Hér að neðan má sjá einkunnir íslenska liðsins í kvöld.

Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður 6

Gat lítið gert í mörkunum tveimur. Varði annars af öryggi það sem á markið kom án þess að þurfa að taka neitt svakalega á honum stóra sínum. Á auðvelt með að taka við sendingum og skilaði boltanum ágætlega frá sér.

Birkir Már Sævarsson, hægri bakvörður 7

Sennilega besti maður Íslands í leiknum. Var sífellt tilbúinn að skeiða fram hægri kantinn, í sínum 99. landsleik, en skilaði sinni varnarvinnu samt ágætlega og hleypti Sorescu ekki framhjá sér.

Hjörtur Hermannsson, miðvörður 5

Óöruggur í upphafi leiks og gerði sig sekan um glæpsamleg mistök þegar hann gaf nánast mark með of lausri sendingu á Rúnar Alex, en slapp með skrekkinn. Kom sér stundum í vandræði með boltann en varðist ágætlega og náði sér betur á strik þegar leið á leikinn.

Brynjar Ingi Bjarnason, miðvörður 6

Virtist líða nokkuð þægilega í sínum fyrsta mótsleik með A-landsliðinu. Yfirvegaður og með nákvæmar og oftast öruggar sendingar, og gekk ágætlega að eiga við sóknarmenn Rúmena.

Guðmundur Þórarinsson, vinstri bakvörður 5

Duglegur að koma fram á við en skilaði boltanum stundum ekki nægilega vel frá sér. Svaf illa á verðinum í fyrra marki Rúmena þegar hann missti af Dennis Man á fjærstönginni en getur annars þokkalega við unað eftir að hafa loksins fengið tækifæri til að spila mótsleik fyrir íslenska A-landsliðið.

Jóhann Berg Guðmundsson, hægri vængmaður 5

Oft skapað meiri ógn enda alltaf haft sterkari samherja sér til fulltingis í landsliðinu. Átti tvær fínar fyrirgjafir í kjölfar þess að Rúmenar komust yfir og kláraði 90 mínútna leik, sem er gott, en hefði eflaust viljað sýna meira í fyrirliðahlutverkinu.

Guðlaugur Victor Pálsson, miðjumaður 4

Victor á, sem aftasti miðjumaður, sína sök á því hve mikill losarabragur var á varnarleik Íslands í fyrri hálfleiknum. Pressaði illa á Stanciu þegar hann lagði upp fyrra mark leiksins og gerði lítið fyrir íslenska liðið fram á við, eins og var svo sem ekki ætlast til.

Birkir Bjarnason, miðjumaður 6

Afar vinnusamur og virkur í spili íslenska liðsins. Leið að vanda vel með boltann en kannski fullvel stundum sem hægði á sóknarleiknum. Kom sér í hættuleg færi og var í tvígang afar nálægt því að skora.

Andri Fannar Baldursson, miðjumaður 5

Hafði ekki nógu mikil áhrif fram á við en gerði svo sem heldur engin stór mistök í leiknum. Þarf að sýna meira í því hlutverki sem honum var ætlað á miðjunni í kvöld en er auðvitað rétt að hefja sinn feril.

Albert Guðmundsson, vinstri vængmaður 4

Komst sáralítið áleiðis í leiknum og olli vonbrigðum með frammistöðu sinni á vinstri kantinum. Einstaka sinnum náðu þeir Guðmundur að tengja vel saman en það skilaði engu. Færður í fremstu stöðu um tíma í seinni hálfleik en það breytti engu.

Viðar Örn Kjartansson, framherji 5

Fékk gott skallafæri í fyrri hálfleik sem honum tókst ekki að nýta en vantaði annars oftast eitthvað smávegis upp á til að koma sér í góð færi. Óvænt í byrjunarliðinu eftir að hafa ekki verið valinn í upphaflega 25 manna hópinn en náði ekki að grípa tækifærið að þessu sinni.

Jón Dagur Þorsteinsson kom inn á fyrir Viðar Örn á 66. mínútu 6

Kom inn á vinstri kantinn og var nokkuð ógnandi fram á við.

Ísak Bergmann Jóhannesson kom inn á fyrir Andra Fannar á 66. mínútu 6

Mjög viljugur til að sækja hratt og búa eitthvað óvænt til. Ef til vill of samviskusamur í seinna marki Rúmena þegar hann kom í veg fyrir að rangstaða væri dæmd.

Andri Lucas Guðjohnsen kom inn á fyrir Albert á 79. mínútu

Komst lítið ef nokkuð í boltann þann tíma sem hann spilaði. Spilaði of lítið til að fá einkunn.


Tengdar fréttir

Jóhann Berg: Gríðar­legt svekk­elsi

„Bara gríðarlegt svekkelsi. Fannst fyrri hálfleikurinn flottur hjá okkur, við fáum gott færi sem við klárum á venjulegum degi. Þá er þetta allt annar leikur,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði Íslands, eftir svekkjandi 0-2 tapi gegn Rúmeníu í undankeppni HM í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×