Fótbolti

Messi tæklaður fólskulega og Brassar á hraðleið til Katar

Sindri Sverrisson skrifar
Lionel Messi liggur eftir að hafa verið tæklaður með harkalegum hætti í leiknum við Venesúela.
Lionel Messi liggur eftir að hafa verið tæklaður með harkalegum hætti í leiknum við Venesúela. Getty/Miguel Gutiérrez

Brasilía er enn með fullt hús stiga á toppi Suður-Ameríkuriðilsins í undankeppni HM karla í fótbolta eftir 1-0 sigur gegn Síle á útivelli í nótt. Framundan er stórleikur Brasilíumanna gegn Argentínu.

Brasilía var án fjölda leikmanna vegna kórónuveirufaraldursins og sóttkvíarreglna honum tengdum. Níu leikmenn sem spila á Englandi gátu ekki verið með liðinu og tveir leikmenn sem kallaðir voru inn úr liði Zenit í Rússlandi þurftu að snúa aftur til Rússlands.

Í liðinu í nótt voru þó leikmenn á borð við Neymar, Casemiro, Marquinhos og fleiri. Það var varamaðurinn Éverton Ribeiro, leikmaður Flamengo í Brasilíu, sem skoraði eina markið gegn Síle á 64. mínútu.

Brasilía er með 21 stig, sex stigum á undan Argentínu á toppi riðilsins sem telur tíu lið. Fjögur efstu liðin komast beint á HM í Katar en liðið í 5. sæti fer í umspil við lið frá öðrum heimsálfum.

Rekinn af velli eftir ljótt brot á Messi

Argentína vann Venesúela á útivelli, 3-1, en heimamenn voru manni færri frá 32. mínútu eftir að Adrián Martínez fékk rautt spjald fyrir skelfilega tæklingu í legg Lionels Messi.

Messi lék allan leikinn en það voru aðrir sem sáu um að skora mörkin fyrir Suður-Ameríkumeistarana. Lautaro Martínez gerði fyrsta markið í lok fyrri hálfleiks. Joaquin Correa og Ángel Correa komu inn af bekknum eftir klukkutíma leik og gerðu sitt markið hvor, áður en Yeferson Soteldo minnkaði muninn fyrir Venesúela úr víti í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×